Það hlýtur það að vera nokkurt áhyggjuefni að jafn myndarlegur afgangur af vöruskiptum, ásamt þeim viðsnúningi í þjónustujöfnuði sem ráða má af nýlegum tölum um kortaveltu og ferðamennsku, nái ekki að skjóta styrkari stoðum undir gengi krónu á hinum skilyrta gjaldeyrismarkaði.

Þetta kemur fram í Morgunkorni Glitnis en eins og frá var greint í morgun hefur verulegur afgangur myndast á vöruviðskiptum við útlönd frá falli gömlu bankanna í októberbyrjun og samkvæmt bráðabirgðatölum Hagstofu var afgangur af vöruskiptum í desember 24 milljarðar króna.

Frá því fjármála- og gjaldeyriskreppan hóf innreið sína í upphafi 4. ársfjórðungs 2008 hefur afgangur af vöruskiptum numið tæplega 13 milljörðum króna á mánuði að meðaltali.

„Verði slíkur afgangur af vöruskiptum áfram má lauslega gera ráð fyrir að vöruskiptajöfnuðurinn verði hagstæður sem nemur allt að 10% af landsframleiðslu þessa árs,“ segir Greining Glitnis í Morgunkorni.

„En jákvæð áhrif þess á krónuna láta hins vegar á sér standa.“

Sjá nánar Morgunkorn Glitnis.