*

sunnudagur, 7. mars 2021
Innlent 15. janúar 2021 08:15

Afgangur í fyrsta sinn í tvö ár

Vöruskiptajöfnuður var jákvæður í fyrsta sinn síðan janúar 2019 í desember síðastliðnum og nam einum milljarði króna.

Ritstjórn
Haraldur Jónasson

MIlljarðs afgangur var af vöruskiptum við útlönd í desember samkvæmt nýbirtum bráðabirgðatölum Hagstofu Íslands, en vöru- og þjónustujöfnuðurinn var á sama tíma neikvæður um þrjá milljarða samkvæmt tölum stofnunarinnar.

Er það fyrsti mánuðurinn frá janúar 2019 þar sem vöruútflutningur mælist meiri en innflutningur, en í ársbyrjun 2019 seldi WOW air tvær farþegaþotur úr landi og hafði það mikil áhrif á mánaðartölurnar þá.

Raunar sker síðasti þriðjungur ársins 2020 sig frá öðrum hvað varðar myndarlegan útflutning á árinu og hefur sú þróun bætt vöruskiptin talsvert þrátt fyrir að innflutningur hafi einnig aukist í krónum talið á þessu tímabili.

Svo lítur út fyrir að vörskiptahalli ársins í heild sinni hafi verið 23 milljörðum króna minni í fyrra en á árinu 2019, sé miðað við þessar tölur. Hvað árið í ár varðar má gera ráð fyrir að vöruskiptahalli verði áfram nokkur.

Ál og eldi stefnir upp á við

Lítil breyting virðist í pípunum hvað varðar útflutning sjávarafurða, að eldisfiski undanskildum. Aftur á móti gæti útflutningsverðmæti álafurða orðið talsvert meira í ár en í fyrra þar sem verð hefur hækkað umtalsvert og ónýtt framleiðslugeta er fyrir hendi eftir samdrátt í framleiðslumagni undanfarin misseri.

Á móti vegur að aukin fjárfesting segir fljótt til sín í innflutningstölunum og þá má gera ráð fyrir að einkaneysla taki einnig við sér þegar lengra líður á árið með tilheyrandi vexti í innflutningi neysluvara.

„Stærsti óvissuþátturinn er þó hvenær, og hversu hratt, ferðaþjónustan tekur við sér á nýjan leik eftir COVID-faraldurinn.“ segir Jón Bjarki Bentsson, aðalhagfræðingur Íslandsbanka, en lesa má Korn hans á vef Íslandsbanka hér.

„Þeirri þróun mun fylgja aukinn innflutningur, bæði á aðföngum fyrir greinina sjálfa og vegna áhrifa hennar á innlenda eftirspurn. Vöxtur í hreinum þjónustutekjum mun þó vega til muna þyngra í því reikningsdæmi. Þannig lítur út fyrir að viðskiptajöfnuður hafi verið nálægt jafnvægi á síðasta ári og eflaust verður sú áfram raunin meðan ferðaþjónustan liggur niðri. Með upprisu ferðaþjónustunnar eru hins vegar horfur á að afgangur myndist að nýju á utanríkisviðskiptum líkt og raunin var lengst af síðasta áratug.“