Fjárlög fyrir næsta ár verða lögð fram þegar Alþingi kemur saman í haust, en efni þeirra hefur ekki verið kunngjört í smáatriðum. Meirihluti fjárlaganefndar hefur þó fundað með fjármálaráðherra um drög að frumvarpi til fjárlaga þar sem megináherslur þess hafa verið kynntar.

Vigdís Hauksdóttir, formaður fjárlaganefndar, segir að helsta markmiðið verði afgangur af rekstri ríkisins, sem verði notaður til að greiða skuldir ríkissjóðs. „Fjármálaráðherra hefur kynnt okkur áherslur sínar. Þær eru að sýna mikið aðhald og hindra áfram útþenslu ríkisins,“ segir Vigdís.

„Þetta er afar mikilvægt markmið. Það er algjörlega þannig,“ segir Oddný G. Harðardóttir, fulltrúi Samfylkingar í fjárlaganefnd og fyrrverandi fjármálaráðherra, um ofangreint markmið. „En auðvitað skiptir máli hvernig verður forgangsraðað. Það er það sem ég hef áhyggjur af. Ég get ekki séð að það gangi upp nema það eigi að skera verulega niður í velferðarþjónustu. Það kemur ekki til greina af minni hálfu,“ segir Oddný.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.