Rekstrarafgangur Kópavogsbæjar nam 2,2 milljörðum króna árið 2017 sem er tæplega tveimur milljörðum meira en gert hafði verið ráð fyrir í fjárhagsáætlun.

Skuldahlutfall bæjarins var 133% í árslok en gert hafði verið ráð fyrir 140% að því er fram kemur í fréttatilkynningu frá bænum. Á kjörtímabilinu hafa vaxtaberandi skuldir, það er að segja skuldir við fjármálastofnanir, lækkað um 5,5 milljarða.

Tekjur 2,5 milljörðum umfram áætlun

Tekjur sveitarfélagsins námu rúmlega 30,3 milljörðum en gert hafði veið ráð fyrir 27,8 milljörðum í tekjum fyrir A- og B-hluta. Eigið fé samstæðunnar nam í árslok 19,2 milljörðum en eigið fé A-hluta nam tæplega 17,7 milljörðum.

Veltufé frá rekstri var 3,8 milljarðar króna en áætlanir höfðu gert ráð fyrir 3,2 milljörðum. Veltufé frá rekstri sýnir hvað rekstur gefur af sér til að standa undir framkvæmdum og afborgunum lána. Rekstrarniðurstaða A-hlutans var jákvæð um 1,9 milljarða króna en gert hafði verið ráð fyrir 122 milljóna afgangi.

16 milljarðar í launaútgjöld til ríflega 2.500 starfsmanna

Laun og launatengd gjöld voru alls 15,9 milljarðar króna sem eru 700 milljónum yfir því sem áætlað var. Aðal munurinn liggur í uppgjöri lífeyrisskuldbindinga við Brú, lífeyrissjóð starfsmanna sveitarfélaga. Hækkun lífeyrisskuldbindinga við LSK (Lífeyrissjóð starfsmanna Kópavogs) var 689 milljónir króna.

Heildarfjöldi starfsmanna hjá sveitarfélaginu í árslok 2017 voru 2.559 en meðalfjöldi stöðugilda 1.806. Íbúar Kópavogsbæjar þann 1. september 2017 voru 35.902 og fjölgaði þeim um 668 frá fyrra ári eða um 1,9%.

Útsvar undir lágmarki og álögur lækkaðar á hverju ári

Ármann Kr. Ólafsson bæjarstjóri Kópavogs og oddviti Sjálfstæðisflokksins sem eru í meirihluta í bænum með Bjartri framtíð, segir engin lán hafa verið tekin fyrir framkvæmdum í bænum, en þær kostuðu 2,5 milljarða á árinu. „Þessi góða niðurstaða ársreikningsins markar tímamót hjá Kópavogsbæ. Við höfum undanfarin ár lagt mikla áherslu á aðhald í rekstri og greiða niður skuldir,“ segir Ármann.

„Útsvarið er undir lögbundnu hámarki og við höfum lækkað skatta og álögur á hverju ári allt kjörtímabilið eins og lagt var upp með í málefnasamningi meirihlutans í upphafi þess. Ársreikningurinn sýnir að þær áherslur hafa skilað sér og við uppskerum eftir því.“

Skuldir lækkað um 8 milljarða m.v. verðlag síðasta árs

Í ársreikningi 2013 voru vaxtaberandi skuldir 35,7 milljarðar á verðlagi þess tíma, en miðað við vísitölu ársreiknings 2017, 38,2 milljarðar. Vaxtaberandi skuldir í ársreikningi 2017 eru hins vegar 30,2 milljarðar þannig að þær hafa lækkað um 5,5 milljarða á verðlagi hvors árs, en um 8 milljarða, reiknað á verðlagi ársins 2017.

Skuldahlutfall samstæðu er sem fyrr segir 133% en var 146% í árslok 2016. Það var hæst 242% árið 2010. Ekki voru tekin ný lán á árinu 2017 og alls greiddar 2,2 milljarðar í afborganir lána.