Ný ríkisstjórn undir forystu Katrínar Jakobsdóttur formanns Vinstri grænna sem mynduð er í dag ásamt Sjálfstæðisflokki og Framsóknarflokki stefnir að því því að eyða 10 milljörðum meira en fyrri ríkisstjórn stefndi að á næsta ári að því er Vísir greinir frá.

Eins og Viðskiptablaðið sagði frá á sínum tíma stefndi ríkisstjórnin sem laut forystu Bjarna Benediktssonar formanns Sjálfstæðisflokksins að því að skila 44 milljarða afgangi en nú er ljóst að nálega 10 milljörðum til viðbótar verði settir í heilbrigðiskerfið að því er Vísir greinir frá.

Refsingar fyrir innflutning og sölu fíkniefna verða hertar en dregið úr refsingum fyrir neyslu og vörslu efna. Jafnframt er stefnt að afnámi verðtryggingar í áföngum, taka á móti fleiri flóttamönnum, þrátt fyrir orð eins af þeim þingmönnum VG sem ekki styðja ríkisstjórnina sem og að kolefnisgjaldið verður strax tvöfaldað.

Síðar er stefnt að því að það verði hækkað enn frekar í samræmi við áætlun í loftslagsmálum en stefnt er að því að ganga lengra en Parísarsamkomulagið og ná kolefnishlutleysi árið 2040. Auk þess stefnir ríkisstjórnin að því að ná meðaltali OECD í fjármögnun háskóla árið 2020 og stuðla að því að fólk setjist að á landsbyggðinni með hvötum í námslánafyrirkomulaginu.

Allir njóti jafnra tækifæra

Sáttmáli Framsóknarflokksins, Sjálfstæðisflokksins og Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs um ríkisstjórnarsamstarf og eflingu Alþingis verður undirritaður í Listasafni Íslands á fundi flokkanna sem nú stendur yfir.

Í sáttmálanum eru sett fram metnaðarfull og framsýn markmið um velferð, mannréttindi og loftslagsmál, eflingu Alþingis og aukið þverpólitískt samráð, stórsókn í uppbyggingu á innviðum um allt land og eflingu heilbrigðis- og menntakerfa segir í fréttatilkynningu. Um 100 aðgerðir og áherslumál er að finna í sáttmálanum í þágu þessara markmiða og annarra verkefna.

Stjórnin er skipuð þremur stærstu þingflokkunum sem spanna hið pólitíska litróf frá vinstri til hægri. Þeir eru samstíga um að bæta lífskjör og lífsgæði á Íslandi, stuðla að samfélagslegri sátt og búa þannig um hnútana að allir fái notið jafnra tækifæra.

Íslenskt samfélag stendur á tímamótum nú þegar tekist hefur að rétta við efnahag landsins og ná jafnvægi í ríkisfjármálum. Ríkisstjórnin mun nýta þessa sterku stöðu til að bæta samfélagið. Hún mun leggja áherslu á að varðveita efnahagslegan stöðugleika, lækka skatta á launafólk og renna stoðum undir samkeppnishæfni landsins til framtíðar, ekki síst með auknum stuðningi við menntun og nýsköpun.

Áherslur og aðgerðir í stjórnarsáttmálanum eru meðal annars þessar, en á vef stjórnarráðsins má lesa sáttmálann í heild sinni:

  • Efling Alþingis er eitt af forgangsmálum ríkisstjórnarflokkanna. Sjálfstæði þingsins verður styrkt, meðal annars með auknum stuðningi við nefndastarf og þingflokka.
  • Í þágu aukins samráðs og breiðari samstöðu verða þverpólitískir hópar settir á fót um nokkur veigamikil verkefni, svo sem stofnun miðhálendisþjóðgarðs, mótun orkustefnu og nýsköpunarstefnu og endurskoðun stjórnarskrárinnar.
  • Heilbrigðiskerfið á að standast samanburð við það sem best gerist í heiminum og allir landsmenn eiga að fá notið góðrar þjónustu, óháð efnahag og búsetu. Átak verður gert í uppbyggingu hjúkrunarrýma, heilbrigðisstefna fyrir Ísland fullunnin, dregið úr greiðsluþátttöku sjúklinga og geðheilbrigðisáætlun hrint í framkvæmd.
  • Hafin verður stórsókn í menntamálum. Stefnt verður að því að fjármögnun háskólastigsins nái meðaltali OECD-ríkjanna fyrir árið 2020. Iðnnám og verk- og starfsnám verður eflt. Framhaldsskólum verður tryggt fjármagn og frelsi til eigin stefnumótunar innan ramma framhaldsskólalaganna. Brugðist verður við yfirvofandi kennaraskorti í samstarfi við sveitarfélögin.
  • Uppbyggingu í vegamálum verður hraðað, bæði nýframkvæmdum og viðhaldi. Stutt verður við borgarlínu. Ljósleiðaravæðingu landsins verður lokið 2020, afhendingaröryggi raforku aukið og átak gert í fráveitumálum í samstarfi við sveitarfélög. Sóknaráætlanir landshlutanna verða styrktar.
  • Lögð verður áhersla á ábyrg ríkisfjármál og efnahagslegan stöðugleika. Til að styðja við farsæla niðurstöðu kjarasamninga hyggst ríkisstjórnin leggja áherslu á lækkun tekjuskatts í neðra skattþrepi. Þá er það einnig forgangsmál á kjörtímabilinu að lækka tryggingagjald.
  • Áform um hækkun virðisaukaskatts á ferðaþjónustu verða lögð til hliðar. Fjármagnstekjuskattur verður hækkaður í 22% samhliða því að skattstofn fjármagnstekna verður tekinn til endurskoðunar. Kolefnisgjöld verða hækkuð um 50% fyrst um sinn. Virðisaukaskattur af bókum verður afnuminn.
  • Farið verður í endurskipulagningu á fjármálakerfinu og markviss skref tekin til að afnema verðtrygginguna á neytendalánum. Leitað verður leiða til að draga úr eignarhaldi ríkisins á fjármálafyrirtækjum. Gerð verður hvítbók um framtíðarsýn fyrir íslenskan fjármálamarkað og hún lögð fyrir Alþingi.
  • Unnið verður með aðilum vinnumarkaðarins að ábyrgum vinnumarkaði. Innleidd verða ákvæði um keðjuábyrgð í ólíkum atvinnugreinum, unnið gegn kynbundnum launamun, félagslegum undirboðum, mansali og kennitöluflakki og vinnueftirlit eflt.
  • Stuðlað verður að bættu aðgengi landsmanna að öruggu húsnæði með eflingu stuðningskerfa, samræmdri stefnumörkun í uppbyggingu félagslegs húsnæðis og auknu gagnsæi á leigumarkaði. Þröskuldur ungs fólks og tekjulágra inn á húsnæðismarkaðinn verður lækkaður. Skoðaðir verða möguleikar á að nýta lífeyrissparnað til þessa.
  • Markviss skref verða tekin á kjörtímabilinu til afnáms verðtryggingar á lánum og samhliða hugað að mótvægisaðgerðum í þágu ungs fólks og tekjulágra.
  • Frítekjumark atvinnutekna aldraðra verður hækkað í hundrað þúsund krónur strax um næstu áramót. Gjaldskrá vegna tannlækninga aldraðra og örorkulífeyrisþega verður uppfærð til að lækka kostnað þessara hópa. Samráð verður haft við heildarsamtök örorkulífeyrisþega um umbætur á almannatryggingakerfinu í þeirra þágu.
  • Gerð verður úttekt á kjörum tekjulægstu hópanna í íslensku samfélagi, tillögur til úrbóta settar fram og þeim fylgt eftir.
  • Í loftslagsmálum verður stefnt að því að gera betur en Parísarsamkomulagið segir til um. Stefnt verður að kolefnishlutlausu Íslandi í síðasta lagi árið 2040 og 40% samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda fyrir 2030. Loftslagsráð verður sett á laggirnar og aðgerðaáætlun um samdrátt í losun verður tímasett og fjármögnuð.
  • Þjóðarsjóður verður stofnaður utan um arð af auðlindum landsins og byrjað á orkuauðlindinni. Hlutverk sjóðsins verður að byggja upp viðnám til að mæta fjárhagslegum áföllum. Afmarkaður hluti ráðstöfunarfjár sjóðsins verður notaður til að efla nýsköpun og ráðast í átak í uppbyggingu hjúkrunarrýma.
  • Ísland á að vera leiðandi í framleiðslu á heilnæmum landbúnaðarafurðum. Lögð verður áhersla á nýsköpun og vöruþróun í landbúnaði til að stuðla að byggðafestu, auka verðmætasköpun og nýta tækifæri sem felast í áhuga á matarmenningu með sjálfbærni og gæði að leiðarljósi. Innleiddir verða sérstakir aðlögunarsamningar um nýja starfsemi til sveita.
  • Tryggja þarf samkeppnishæfni sjávarútvegs, leggja þarf áfram áherslu á sjálfbæra auðlindanýtingu og efla hafrannsóknir. Veiðigjald á að tryggja þjóðinni réttlátan hlut í arðinum af auðlindinni ásamt því að endurspegla afkomu greinarinnar. Fiskeldi er vaxandi atvinnugrein sem felur í sér tækifæri til atvinnuuppbyggingar en þarf að byggja upp með ýtrustu varúð í samræmi við ráðgjöf vísindamanna.
  • Mörkuð verður langtímastefna í ferðaþjónustu í samvinnu við hagsmunaaðila. Stutt verður við rannsóknir í greininni og innviðauppbyggingu.
  • Heildstæð nýsköpunarstefna fyrir Ísland verður mótuð í samstarfi við fulltrúa stjórnmálaflokka og í nánu samráði við atvinnulífið og vísindasamfélagið. Hún verður samþætt við framtíðarsýn í menntamálum, frá leikskóla til háskóla, í samráði við skólasamfélagið.
  • Umhverfi fyrir rannsóknir og þróun á að vera framúrskarandi. Fyrirkomulag endurgreiðslna vegna rannsókna og þróunar verður endurskoðað í því skyni að afnema þak sem verið hefur á slíkum endurgreiðslum.
  • Aðgerðaáætlun um úrbætur í meðferð kynferðisbrota verður framfylgt og hún fjármögnuð að fullu. Innviðir réttarvörslukerfisins verða efldir til að styrkja stöðu brotaþola innan þess og efla og samhæfa þjónustu við brotaþola á landsvísu, ekki síst í heilbrigðiskerfinu. Lagaumhverfi kynferðisbrota verður rýnt með það að markmiði að styrkja stöðu kærenda kynferðisbrota.
  • Ísland á að vera í fremstu röð í málefnum hinsegin fólks. Í því skyni verður sett metnaðarfull ný löggjöf um kynrænt sjálfræði.