Eiturlyfjabarónar í Afganistan eru nú byrjaðir að ráða erlenda lyfjafræðinga í vinnu í því skyni að láta þá breyta hráópíumi í hágæða heróín, að því er fram kemur í viðvörun frá Sameinuðu þjóðunum. Afganistan er einn stærsti ræktandi ópíumvalmúa í heiminum, þrátt fyrir að vesturveldin hafi eytt tugum milljörðum króna í baráttunni gegn framleiðslunni á undanförnum árum.

Samkvæmt eiturlyfja- og glæpastofnun SÞ eru flestir lyfjafræðingarnir frá Íran, Tyrklandi og Pakistan og eru sumir þeirra úr hópi færustu lyfjafræðinga á þeim svæðum, enda geta eiturlyfjabarónarnir greitt þeim háar fjárhæðir fyrir vinnu sína. Þeim er smyglað til sumra verst stöddu og óróasömustu svæða í Afganistan í því skyni að blanda ópíumhráefni saman við kemísk efni sem smyglað hefur verið til landsins, í því skyni að búa til heróín í hæsta gæðaflokki.

Ríflega 90% heróínframleiðslu heimsins er ættuð frá Afganistan. Um 60% af valmúaframleiðslu landsins var breytt í heróín í fyrra að mati SÞ, og til þess þurfti um 13 þúsund tonn af kemískum efnum. Þeirra mikilvægast er acetic anhydride (ediksýruanhýdríð) en erfitt hefur reynst að hindra smygl á því þar sem það er notað í margan löglegan varning, svo sem málningu og lyf.

Helmingur af þjóðarframleiðslu

Það er áætlað að Afganistan framleiði heróín fyrir ríflega 3 milljarða dollara árlega, eða um helming af landsframleiðslu þess. Barátta Talibana gegn vestrænu setuliði er að miklu leyti fjármögnuð með framleiðslu og sölu efnisins á Vesturlöndum. Eiturlyfja- og glæpastofnun SÞ áætlar að 11 milljónir jarðarbúa séu háðir heróíni, þar af um 3 milljónir í Evrópu. Stofnunin berst vitanlega gegn notkun þessa hættulega og mjög svo ávanabindandi efnis en bendir einnig á að um margt sér heróín “eiturlyf gærdagsins”, samanborið við að áætlað er að yfir 14 milljónir mann noti kókaín reglulega í heiminum, 25 milljónir manna eru háðir amfetamíni og um 159 milljónir eru háðir notkun marijúana.