*

þriðjudagur, 18. janúar 2022
Innlent 26. október 2017 11:26

Afgreiða hælisumsóknir á 3 dögum

Dómsmálaráðherra segir að langur meðferðartími hafi spurst út sem hafi hvatt til tilhæfulausra umsókna.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Sigríður Á. Andersen dómsmálaráðherra segir að nú sé brotum á reglum um svokallað endurkomubann einstaklinga frá öruggum ríkjum sem sótt hafa um hæli hér á landi fylgt eftir af meiri festu en áður. Skýrsla Ríkislögreglustjóra um skipulagða brotastarfsemi segir að íslenska hælisleitendakerfið hafi verið markvisst misnotað í þeim tilgangi að stunda hér svarta atvinnu eða brotastarfsemi

Segir Sigríður að það hafi verið nauðsynlegt að taka málaflokkinn föstum tökum enda hafi langur meðferðartími mála hér á landi spursts út og leitt til enn aukinnar aðsóknar hingað til lands að því er Morgunblaðið greinir frá.

Dómsmálaráðherra breytti reglugerð í ágúst

Með breytingum sem gerðar voru á reglugerð um útlendinga í ágúst síðastliðnu hafi eins og Viðskiptablaðið hefur áður fjallað um dregið úr umsóknum um hæli og dregið úr endurkomu þeirra sem hafi verið vísað frá.

Í skýrslu greiningardeildar Ríkislögreglustjóra segir frá að fólki sem hafi verið vísað frá með lögreglufylgd úr landi frá löndum eins og Albaníu, Makedóníu og Georgíu hafi haldið strax aftur hingað til lands eftir synjun um vernd eða hæli.

„Georgía fékk áritunarfrelsi inn á Schengen-svæðið í sumar og umsóknum þaðan fjölgaði þá umtalsvert,“ segir Sigríður en hún segir Ísland áskilja sér rétt að taka upp áritunarskyldu ef þess gerist þörf.

Seldur „íslenskur draumur“

„Fólk vissi að það gat komið hingað með tilhæfulausar umsóknir og jafnvel átt þess kost að afla sér tekna nokkurn veginn átölulaust. Þess vegna skiptir miklu máli að haft sé eftirlit með vinnustöðum og að málsmeðferðartíminn sé stuttur, en undanfarið hefur Útlendingastofnun tekist að afgreiða umsóknir frá öruggum ríkjum á þremur dögum.“

Hefur Sigríður áhyggjur af því að svört atvinnustarfsemi tengist of einhvers konar misnotkun og kúgun enda sé það þekkt erlendis að slík kerfi hafi verið nýtt til að senda fólk til að stunda vændi milli landa.

„Þetta er staðreynd og menn hafa áhyggjur af því að hluta þeirra hælisleitenda, sem hafa lagt fram tilhæfulausar umsóknir, hafi verið seldur einhverskonar „íslenskur draumur“, hingað til lands. Aðrir gætu þurft að borga skuld heima fyrir og verið sendir hingað til að stunda afbrot.“