Jóhanna Sigurðardóttir og Steingrímur J. Sigfússon gáfu frá sér yfirlýsingu eftir að þingið fór í sumarfrí í gærkvöldi til að ítreka hvaða þýðingu það hefði að hækka veiðigjald á sjávarútveginn. Það gerði ríkisstjórninni kleift að fjárfesta í samgöngubótum og þessi gjaldheimta væri ekki til eins árs.

Á yfirstandandi þingi voru afgreidd hátt í 150 þingmál samkvæmt yfirlýsingu formanna flokkanna. Nefna þau ný heildarlög um Stjórnarráð Íslands, staðfest fækkun ráðuneyta úr 12 í 8 á kjörtímabilinu, þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs um nýja stjórnarskrá, stuðningur við sjálfstæði Palestínu, þingsályktanir um grænt hagkerfi, stefnumörkun um erlendar fjárfestingar, samgönguáætlun, lyfjalög, barnalög, ný heilbrigðislög og fleiri mál.

Óbilgirni stjórnarandstöðunnar

„Langvinnt málþóf og óbilgirni stjórnarandstöðunnar, minnihlutans á Alþingi, gerði hins vegar að verkum að óumflýjanlegt varð að fresta afgreiðslu allmargra mála um sinn. Slíkt er umhugsunarefni frá sjónarhóli grundvallar leikreglna lýðræðis- og þingræðis, en breytir engu um ásetning stjórnarflokkanna að leiða þau mál einnig til lykta. Þar má nefna frumvarp um stjórn fiskveiða, rammaáætlun um verndun og nýtingu náttúrusvæða og rannsókn á einkavæðingu bankanna. Vissulega þurfa bæði ríkisstjórn og Alþingi að betrumbæta verklag sitt og jafna vinnuálag innan þingtímans. Á hitt ber að líta að aðstæður hafa verið krefjandi og verkefnin ærin á leið Íslands til endurreisnar sem nú er sem betur fer komin vel á veg," segir í yfirlýsingu ráðherranna.