Héraðsdómur Reykjavíkur hefur vísað frá dómi kröfu Wow air um að úrskurður áfrýjunarnefndar samkeppnismála yrði felldur úr gildi. Var það gert að frumkvæði dómarans (ex officio) , sem taldi Wow air ekki hafa lögvarða hagsmuni af því að fá skorið úr um kröfu sína í málinu.

Niðurstaða dómsins var sú að það myndi engu máli skipta fyrir Wow air að fá efnislega úrlausn í málinu, enda sé úthlutunartímabilið sem um ræðir liðið og félagið hafi fengið úthlutað afgreiðslutímum fyrir þetta ár. Því myndi það ekki skipta máli fyrir Wow þó að úrskurður áfrýjunarnefndar samkeppnismála yrði felldur úr gildi.

Þar að auki kemst dómurinn að því að Wow air hafi enga hagsmuni fram yfir aðra flugrekendur að Isavia útbúi sérstakar leiðbeiningar fyrir samræmingarstjóra Keflavíkurflugvallar um úthlutun afgreiðslutíma, líkt og Samkeppniseftirlitið hafði fyrirskipað áður en áfrýjunarnefnd felldi niðurstöðuna úr gildi.

Ekki skaðlegt samkeppni

Í tilkynningu frá Icelandair vegna málsins kemur fram að það sé sameiginlegt með nýuppkveðnu áliti héraðsdóms, ráðgefandi áliti EFTA-dómstólsins og úrskurði áfrýjunarnefndar samkeppnismála að ekki sé fallist á röksemdir Wow air að úthlutunarfyrirkomulagið hafi skaðleg áhrif á samkeppni.

„Ekkert kemur fram um það í úrskurði héraðsdóms, ráðgefandi áliti EFTA-dómstólsins eða í úrskurði áfrýjunarnefndar samkeppnismála að það fyrirkomulag sem viðhaft er við úthlutun afgreiðslutíma á Keflavíkurflugvelli hafi skaðleg áhrif á samkeppni, enda er þetta sama fyrirkomulag og er viðhaft alls staðar annars staðar á Evrópska efnahagssvæðinu,“ segir í tilkynningu.

„Íslenskum stjórnvöldum ber að tryggja að farið sé eftir þessum samræmdum reglum við úthlutun afgreiðslutíma hér á landi. Mikilvægt er að samræmi sé um beitingu reglna um úthlutun afgreiðslutíma á Evrópska efnahagssvæðinu,“ segir jafnframt.