Tesla hefur afhent Suður-Áströlskum stjórnvöldum stærstu rafhlöðu nokkurn tíman smíðaða að því er kemur fram á vef The Wall Street Journal. Rafhlaðan er hlaðin af vindmyllum og getur tryggt orkuafhendingu til 30.000 heimila í meira en eina klukkustund.

Elon Musk stofnandi Teslu hafði lofað því að afhenda rafhlöðuna á innan við 100 dögum frá undirritun samnings um gerð hennar. Með því að afhenda hana nú náði hann að standa við loforðið sem mörgum þótti langsótt að myndi takast.

Rafmagnsleysi hefur herjað á svæðið þar sem rafhlaðan er staðsett en það reiðir sig að miklu leyti endurnýjanlega orkugjafa en nýting sólar- og vindorku sem aflgjafa getur verið ótrygg enda veðurfarsáhætta falin í notkun þeirra.

Áætlaður kostnaður við rafhlöðuna eru um 50 milljónir dala eða um 5 milljarðar króna miðað við núverandi gengi krónunnar.