Hafnarfjörður var með um 350 milljóna króna betri rekstrarniðurstöðu en væntingar voru um.

Á fyrri hluta ársins var rekstrarniðurstaða Hafnarfjarðarkaupstaðar jákvæð sem nam 483 milljónum króna, en áætlun hafði gert ráð fyrir að rekstrarafgangurinn yrði 134 milljónir króna.

Voru tekjur umfram staðgreiðslu umfram áætlun um 147 milljónir króna sem og fjármagnskostnaður var um 282 milljónum króna lægri vegna verðbóta en áætlanir gerðu ráð fyrir.

Tekjur og launatengd gjöld hærri en væntingar voru um

Námu Tekjur Hafnarfjarðarkaupstaðar 11.129 milljónum króna, en það er 153 milljónum umfram áætlun. Stærsti útgjaldaliðurinn, laun og launatengd gjöld voru 92 milljónum hærri en áætlanir gerðu ráð fyrir, og námu þær 5.236 milljónum króna.

Annar kostnaður var þó 46 milljónum króna undir áætlun, eða 3.667 milljónir og var rekstrarniðurstaða fyrir afskriftir jákvæð um 1.738 milljónir króna.

Veltufé frá rekstri um 1,3 milljörðum meiri

Veltufé frá rekstri nam 1.651 milljón króna, sem er um 15% á móti heildartekjum, afskriftir voru 446 miljónir króna og fjármagnsliðir 809 milljónir.

Á sama tíma fyrir ári nam halli á rekstri Hafnarfjarðarkaupstaðar 389 milljónum króna og var þá veltufé frá rekstri um 293 milljónir króna.

Heildareignir 49 milljarðar

Í júnílok námu heildareignir bæjarins rétt rúmlega 49 milljörðum króna ,og höfðu þær hækkað um 543 milljónir á tímabilinu. Námu heildarskuldir og -skuldbindingar samtals 40.243 milljónum króna.

Áætlar bærinn að skuldaviðmið verði komið niður fyrir 150% um mitt ár 2017. Íbúum bæjarins fjölgaði um 1% á árinu, eða 286, en þeir voru 28.425 um mitt árið.