Afkoma álframleiðandans Alcoa á öðrum ársfjórðungi var betri en búist hafði verið við, samkvæmt frétt Reuters.

Mikil eftirspurn eftir áli í Kína og í öðrum nýmarkaðsríkjum hefur valdið hækkun álverðs en á meðan hefur hækkandi orku- og hrávöruverð étið upp hagnað Alcoa að undanförnu.

„Staðan á orkumarkaði ásamt verðhækkunum ýmissa hráefna hækkaði kostnað við álvinnslu og álbræðslu um 20-35% á árunum 2005-2007, og við búumst við svipaðri hækkun á þessu ári,“ sagði framkvæmdastjóri Alcoa, Klaus Kleinfeld, samkvæmt frétt Reuters.

Hagnaður félagsins var 546 milljónir Bandaríkjadala á fjórðungnum, eða 66 cent á hlut, en var á sama fjórðungi árið 2007 715 milljónir Bandaríkjadala, eða 81 cent á hlut. Álsala minnkaði á fjórðungnum og var 7,6 milljarðar Bandaríkjadala, borið saman við 8,1 milljarð dala á 2. fjórðungi ársins 2007.

Álverð hefur hækkað milli ára og nú fær Alcoa 3.058 Bandaríkjadali fyrir hvert tonn af áli, en fékk á 2. fjórðungi 2007 2.879 Bandaríkjadali fyrir tonnið.