Bandaríski álrisinn Alcoa hagnaðist um 24 milljónir dala á þriðja ársfjórðungi samanborið við 143 milljóna tap á sama tíma í fyrra. Tekjur námu 5,77 milljörðum dala á fjórðungnum sem er 1% samdráttur frá í fyrra. Uppgjörið er yfir væntingum greiningaraðila sem bjuggust við tekjum upp á 5,64 milljarða dala.

Bloomberg-fréttaveitan segir afkomuna skýrasta af aukinni eftirspurn eftir áli hjá bílaframleiðendum og hagræðingu í rekstri í skugga verðlækkunar á áli á heimsmörkuðum. Fyrirtækið hefur m.a. dregið úr álbræðslu og dregið úr rekstrarkostnaði. Það hafi vegið upp á móti verðlækkun á áli á heimsmörkuðum. Stjórnendur Alcoa telja eftirspurn eftir áli eiga eftir að aukast frekar og muni hún verða 7% meiri í ár en í fyrra.

Bloomberg-fréttastofan bendir á í tengslum við umfjöllun um uppgjörið að Deutsche Bank breytti mati sínu á Alcoa í síðustu viku og mælti með því að fjárfestar minnkuðu við hlut sinn í félaginu. Rökin voru þau að gengi hlutabréfa Alcoa muni lækka um tæpan þriðjung á næstu tólf mánuðum.

Gengi hlutabréfa Alcoa hefur fallið um 8,5% frá áramótum. Það hækkaði um 1,8% eftir birtingu uppgjörsins í gær. Gengið stendur nú í 7,94 dölum má hlut.