Bandaríski álrisinn Alcoa, sem m.a. rekur álverið á Reyðarfirði, tapaði þremur milljónum dala á öðrum ársfjórðungi. Þetta er þvert á spár sérfræðinga sem höfðu reiknað með vænum hagnaði á fjórðungnum. Mismunurinn skýrist af 63 milljóna dala einskiptikostnaði á fjórðungnum. Afkoman jafngildir engum hagnaði á hlut. Meðalspár sérfræðinga hljóðuðu upp á 5 sent á hlut. Ef horft er til tekna og afkomu fyrir skatt og einskiptikostnað var rekstrarniðustaðan hins vegar yfir væntingum.

Tekjur námu 5,96 milljörðum dala og var það 9,4% samdráttur frá sama tíma í fyrra. Meðalspá markaðsaðila hljóðaði upp á 5,81 milljarð.

Reuters-fréttastofan hefur eftir Klaus Kleinfeld, forstjóra Alcoa, að staðan sé sterk þrátt fyrir þetta. Ástæðan fyrir erfiðara árferði nú en áður skýrist af auknum rekstrarkostnaði, háu hrávöruverði, lækkandi álverði og minni eftirspurn eftir áli á helstu mörkuðum. Hann segir stöðu efnahagsmála í Kína áhyggjuefni enda hafi hægst mjög á hjólum efnahagslífsins þar í landi.

Alcoa hafði þegar gripið til ráðstafana gegn hægingu heimshagkerfisins, dró m.a. úr álframleiðslu um 12% í janúar.

Aukin kaup bíla- og flugvélaframleiðenda á áli vega upp á móti samdrætti á helstu mörkuðum. Reuters segir Kleinfeld hafa sagt á símafundi með fjárfestum og greiningaraðilum að gert sé ráð fyrir að álkaup bílaframleiðenda í Bandaríkjunum muni aukast um á milli 4% til 8% á árinu. Það er einu prósentustigi meira en fyrri spá hljóðaði upp á. Þá er gert ráð fyrir að eftirspurn flugvélaframleiðenda muni aukast um 3% til 5% sem er meira en áður var reiknað með.