Sala Alfesca á fjórða ársfjórðungi nam 116,9 milljónum evra sem er 16,0% aukning frá síðasta ári. Sala á fjárhagsárinu 05/06 (júlí 2005 til júní 2006) var 554,7 milljónir evra samanborið við 506,8 milljónir evra frá árinu á undan sem samsvarar 9,4% innri vexti milli ára.

EBITDA á fjórða ársfjórðungi nam 6,4 milljónum evra af reglulegri starfsemi (7,6 milljónir evra ef tekið er tillit til einskiptistekna og gjalda). EBITDA á fjárhagsárinu 05/06 nam 43,8 milljónum evra af reglulegri starfsemi (45,0 milljónir evra ef tekið er tillit til einskiptis tekna og gjalda) segir í tilkynningu félagsins.

Hagnaður á fjórða ársfjórðungi nam 2,9 milljónum evra af reglulegri starfsemi. Hagnaður á fjárhagsárinu 05/06 nam 19,0 milljónum evra af reglulegri starfsemi. Þrátt fyrir erfiðar markaðsaðstæður er rekstrarafkoma Alfesca góð segir í tilkynningu félagsins sem skýrist m.a. af:

Öflugum innri vexti eða 16% á fjórða ársfjórðungi og 9,4% fyrir árið í heild

Aukinni skilvirkni í helstu framleiðsluþáttum félagsins m.a. í betri hráefnisnýtingu og aukinni framleiðni

Hráefnisverð á laxi náði hámarki í lok júní en verð hefur lækkað hratt á undanförnum vikum sem eru jákvæðar fréttir fyrir Alfesca fyrir komandi jólasölu.

Xavier Govare, forstjóri Alfesca, segir um uppgjörið í tilkynningu félagsins: ?Rekstur Alfesca gekk betur á fjórða ársfjórðungi en gert var ráð fyrir þrátt fyrir áframhaldandi hátt laxaverð en það gerir þennan árangur enn ánægjulegri. Árangrinum ber að þakka öflugum innri vexti og aukinni skilvirkni í helstu framleiðsluþáttum félagsins. Í dag, 4. september, var Wimille frystiverksmiðja Delpierre í Frakklandi formlega afhent nýjum eigendum og má með því segja að umbreytingu Alfesca, sem hófst með kaupum á Labeyrie Group, sölu á frystiverksmiðju í Bandaríkjunum ásamt Iceland Seafood International o.fl. rekstrareiningum, sé nú lokið. Framundan er frekari uppbygging Alfesca með áframhaldandi öflugum innri vexti og ytri vexti þegar rétt tækifæri gefast. Laxaverð náði hámarki í lok júní þegar það fór í ?5,80 pr. kg. Á undanförnum vikum hefur verð á laxi lækkað hratt og er nú í kringum ? 4,40 pr. kg. Hið háa laxaverð síðla sumars mun hafa þó nokkur áhrif á afkomu félagsins á fyrsta fjórðungi á nýju fjárhagsári en annar og jafnframt mikilvægasti ársfjórðungur fjárhagsársins lítur að sama skapi betur út vegna verðlækkana að undanförnu.?