Afkoma Alfesca á fyrsta ársfjórðungi nýs fjárhagsárs (1. júlí 2006 - 30. júní 2007) var yfir væntingum hvort sem litið er til félagsins sjálfs eða greiningardeilda bankanna og þrátt fyrir að hráefnisverð á laxi hafi verið í sögulegi hámarki á fjórðungnum, segir í tilkynningu.

Sala á ársfjórðungnum nam 112 milljónum evra sem er 6,7% aukning frá síðasta ári en sala á öllum megin markaðssvæðum í Frakklandi, í Bretlandi og á Spáni sem og í megin afurðaflokkum var góð. EBITDA á fyrsta ársfjórðungi nam 3,5 milljónum evra sem er 16% aukning milli ára.

Afkoma félagsins eftir skatta var neikvæð um 1,8 milljónir evra samanborið við 3,3 milljóna evra tap á síðasta ári. Nettó áhrif af háu hráefnisverði á laxi í fjórðungnum er um 2 milljónir evra.

Xavier Govare, forstjóri Alfesca, segir rekstrarniðurstöður fyrsta ársfjórðungs nokkuð betri en áætlanir gerðu ráð fyrir þrátt fyrir að hráefnisverð á laxi hafi verið í sögulegu hámarki á sama tíma.

?Þetta skýrist m.a. af góðum innri vexti, áframhaldandi góðum árangri í verksmiðjurekstri okkar sem og frekari lækkun annars rekstrarkostnaðar. Á heildina litið er innri vöxtur á fjórðungnum 6,7% en ef litið er til þriggja af fjórum megin afurðarflokkum Alfesca þá er innri vöxtur að meðaltali um 17% milli ára.?

Sölu á frystisviði Delpierre var að fullu lokið á fjórðungnum og bókfærður var 230 þúsund evru hagnaður í tengslum við lokafrágang sölunnar. Mun salan hafa jákvæð áhrif á rekstur Alfesca.

Félagið hélt áfram að greiða niður langtímalán félagsins eða um rúmar 11 milljónir evra. Frekari niðurgreiðslur eru jafnframt fyrirhugaðar á öðrum ársfjórðungi. Í júlí lauk Lyons Seafoods flutningi í nýja verksmiðju í Warminster í Bretlandi og er öll starfsemin nú undir einu þaki.

Framundan er mikilvægasti ársfjórðungurinn fyrir félagið þar sem 60-70% af framlegð félagsins myndast. Hráefnisverð á laxi hefur lækkað hratt að undanförnu en er enn töluvert yfir meðaltalsverði síðustu ára.

Stjórnendum hefur tekist að hækka útsöluverð til þess að mæta hækkuðu laxaverði að hluta. Sala það sem af er öðrum ársfjórðungi hefur verið í samræmi við áætlanir og útlitið fyrir desember og fjórðunginn í heild verður að teljast gott. Ætti afkoma félagsins að geta orðið betri en á sama tíma á síðasta ári.