Hagnaður íslensku álveranna dróst saman um meira en 70% á milli ára í Bandaríkjadölum talið í fyrra. Hann nam samanlagt 61,4 milljónum dala, jafnvirði 7,4 milljarða króna, borist saman við 222,1 milljón dala árið 2011. Samdrátturinn skýrist af verðlækkun á áli, samkvæmt því sem fram kemur í samantekt Morgunblaðsins.

Hagnaður Alcoa Fjarðaráls nam 33,3 milljónum dala i fyrra miðað við tæplega 95 milljóna dala hagnað árið 2011. Þá nam hagnaður Norðuráls 5,7 milljörðum króna í fyrra. Á sama tíma var 1,9 milljarða króna tap hjá álverinu í Straumsvík.

Í Morgunblaðinu segir að álverð hafi lækkað um meira en 30% á síðastliðnum fjórum árum og um 15% á fyrstu níu mánuðum ársins. Af þeim sökum stefni að óbreyttu í að afkoma álveranna verði því lakari á þessu ári en í fyrra. Álverið í Straumsvík stendur verr en hin álverin þar sem raforkuverð fyrirtækisins er ekki lengur tengt þróun álverðs, segir blaðið.