*

þriðjudagur, 19. október 2021
Erlent 28. júlí 2017 11:10

Afkoma Amazon undir væntingum

Bill Gates er aftur orðinn ríkasti maður heims eftir að Amazon birti uppgjör fyrir annan ársfjórðung.

Ritstjórn
Jeff Bezos, forstjóri og stofnandi Amazon.
epa

Hagnaður netverslunarrisans Amazon nam 197 milljónum dollara á öðrum ársfjórðungi og dróst saman um 77% frá sama tímabili í fyrra. Hér verður þó að taka tillit til þess að Amazon hefur í gegn um tíðina lagt litla áherslu á hagnað og hefur í stað þess endurfjárfest í rekstrinum.

Þrátt fyrir það var afkoman langt undir væntingum greiningaraðila sem höfðu gert ráð fyrir 863,5 milljón dollara hagnaði á tímabilinu samkvæmt frétt Bloomberg.

Tekjur tímabilsins námu 38 milljörðum dollara og jukust um 25% samanborið við árið í fyrra. Á sama tíma jókst kostnaður um 28% milli ára og nam 37,3 milljörðum dollara á tímabilinu og jókst kostnaður því hraðar en tekjur. 

Hlutabréfaverð Amazon hefur lækkað um 3,05% á eftirmarkaði frá því að milliuppgjörið var birt en gengi bréfa félagsins hefur hækkað um tæp 40% það sem af er ári. Varð lækkunin til þess að Bill Gates er aftur orðinn ríkasti maður heims eftir að Jeff Bezos, forstjóri og stofnandi Amazon fór fram úr honum í skamman tíma í gær. 

Stikkorð: Bill Gates Jeff Bezos Amazon Afkoma