Netsölurisinn Amazon tapaði 126 milljónum dala, andvirði um 14,5 milljörðum króna, á öðrum ársfjórðungi og hefur varað við því að hægt geti á veltuaukningu fyrirtækisins á þriðja ársfjórðungi. Tekjur fyrirtækisins á öðrum ársfjórðungi voru 23% meiri en á sama tíma í fyrra, sem er í takt við spár. Fjárfestar eru hins vegar órólegir yfir því að tap fyrirtækisins var um tvöfalt það sem spár höfðu gert ráð fyrir.

Gengi bréfa fyrirtækisins lækkaði um 6% eftir að afkomutilkynningin var send út, að því er segir í frétt BBC. Þar segir að fjárfestingar fyrirtækisins, m.a. í snjallsímanum Fire Phone, sjónvarpstækinu Fire TV og fleiri tækjum, hafi komið niður á afkomu fyrirtækisins, að minnsta kosti til skemmri tíma. Skili fjárfestingarnar sæmilegri ávöxtun geta þær að sjálfsögðu skilað sér aftur, en Fire Phone hefur ekki fengið sérstaklega gott umtal undanfarið.

Amazon gerir ráð fyrir um 15% veltuaukningu á þriðja ársfjórðungi frá sama tímabili í fyrra, sem er töluvert minni aukning en hluthafar eiga að venjast.