Afkoma bandaríska tæknifyrirtækisins Apple á þriðja ársfjórðungi er ekki jafn góð og greiningaraðilar höfðu vænst þrátt fyrir að hafa aukist verulega á milli ára. Fyrirtækið hagnaðist um 6,62 milljarða dala, jafnvirði 770 milljarða íslenskra króna. Á sama tíma í fyrra nam hagnaðurinn 4,31 milljarði króna.

Hagnaðurinn dreifist niður á 7,05 dali á hlut. Búist var að hagnaðurinn færi í 7,31 dal.

Tekjur voru jafnframt lægri en búist var við, 28,3 milljarðar dala í stað 29,6 milljarða.

Þetta er fyrsta skiptið sem afkoma Apple er undir væntingum greinenda í 26 ársfjórðunga, eða í sex og hálft ár.

Sérfræðingar Bloomberg-fréttaveitunnar höfðu reiknað með að Apple myndi selja allt að tuttugu milljón iPhone-snjallsíma undir lok ársfjórðungsins. Þegar stundin rann upp vantaði rétt tæpa þrjár milljónir síma upp á áætlanir. Fréttaveitan segir ástæðuna þá að kaupendur hafi haldið að sér höndum og beðið eftir nýjum farsíma - iPhone 4S - sem kom á markað á fjórða ársfjórðungi.

Fréttaveitan hefur eftir sérfræðingi á fjármálamarkaði að ólíklegt sé að Apple standi undir væntingum og verði greinendur að endurskoða mat sitt á fyrirtækinu.

Gengi hlutabréfa Apple hafði hækkað um rúm 0,5 prósent á hlutabréfamarkaði í dag. Þegar afkomutölur lágu fyrir eftir lokun markaða féll það hratt, eða um 6,7 prósent. Fallið er ekki meira en svo að gengið er á svipuðum slóðum og það var 10. október síðastliðinn.

Jobs, Steven
Jobs, Steven
© Aðrir ljósmyndarar (VB MYND)