Tölvurisinn Apple hagnaðist um 8,8 milljarða dala á þriðja ársfjórðungi sem lauk 30. júní, eða um 1.100 milljarða króna.

Sala á Ipad spjaldtölvunum gekk gríðarlega vel, en alls seldust 17 milljónir af gripnum en spáð hafði verið sölu á 16 milljónum spjaldtölva.

Sala á Iphone snjallsímanum gekk verr, 26 milljónir síma seldust en spáð var 28 milljóna sölu. Skýringin kann að vera sú að margir haldi að sér höndum þangað til Iphone 5 kemur á markað. Iphone vegur mjög þungt í tekjum Apple, eða um 45% af heildarsölunni.

Tekjur Apple námu 35 milljörðum dala sem er 23% aukning milli ára. Það er þó talsvert undir spám greiningaraðila.

Hlutabréf tölvurisans hafa fallið mikið í verði á eftirmarkaði í kvöld, eða um 5,13% og stendur gengi félagsins í 570. Þrátt fyrir það hafa hlutabréf fyrirtæksins hækkað um 45% síðastu 12 mánuði.

Gera ráð fyrir minni veltu á næsta fjórðungi

Apple gerir ráð fyrir 34 milljarða dala veltu á yfirstandandi fjórðungi (4Q) en greiningaraðilar höfðu gert ráð fyrir 38 milljarða dala veltu. Hagnaðurinn er áætlaður 7-7,5 milljarðar dala, eða um 20% minni en greiningaraðilar höfðu ráðgert.

Hér má sjá tilkynningu Apple á síðu fyrirtækisins.