Hagnaður Straumhvarfs ehf. rekstrarfélags ferðaþjónustufyrirtækisins Arctic Adventures hagnaðist um 747 milljónir króna á síðasta ári og ríflega tvöfaldaðist frá fyrra ári samkvæmt ársreikningi félagsins. Tekjur fyrirtækisins námu 5.233 milljónum króna og jukust um 52% milli ára.

Í byrjun síðasta árs var Extreme Iceland sem áður var systurfélag Straumhvarfs sameinað félaginu auk þess sem Arctic Seatours sem áður var dótturfélag Straumhvarfs var einnig sameinað félaginu.

EBITDA félagsins nam 1.160 milljónum króna og ríflega tvöfaldaðist milli ára og það sama á einnig við um rekstrarhagnað sem nam 921 milljón á síðasta ári. Þá lækkaði launahlutfall milli ára en það var 32,1% árið 2018 en var 35,9% árið 2017 en launahlutfall er laun og launatengd gjöld sem hlutfall af tekjum.

Áhrif dóttur- og hlutdeildarfélaga voru jákvæð um 69 milljónir en höfðu verið jákvæð um 43 milljónir árið áður. Eitt af dótturfélögum Straumhvarfs er meðal annars Advenutre Hotels sem rekur tvö hótel á Suðurlandi en bókfært verð þess félags hækkaði um 92 milljónir króna á milli ára í bókum Straumhvarfs en upphæðin samsvarar hagnaði Adventure Hotels á síðasta ári.

Eignir félagsins námu 3.071 milljón í árslok og jukust um tæplega milljarð milli ára. Þar af nam handbært fé 685 milljónum og jókst um 655 milljónir á milli ára. Eigið fé nam 1.321 milljón í lok árs og eigin fjárhlutfall var 43%. Félagið greiddi 200 milljóna arðgreiðslu á síðasta ári auk þess sem félagið mun greiða 527 milljóna arðgreiðslu fyrir síðasta rekstrarár.

Í skýrslu stjórnar Starumhvarfs segir meðal annars að félagið sé háð fjölda farþega sem koma til landsins og að líklegt sé að hægja muni á innri vexti félagsins vegna minni vaxtar í komu ferðamanna, ekki síst vegna áhrifa af gjaldþroti WOW air. Félagið muni hins vegar bregðast við þessu með auknu kostnaðaraðhaldi og markaðssókn.

Þá er einnig nefnt að starfræn sala á ferðum beint til viðskiptavina hafi haldið áfram að vaxta og sé nú um 75% af heildarsölu fyrirtækisins.