Samanlagður hagnaður verðbréfa- og sjóðstýringarfyrirtækja nam 2.061 milljón króna í fyrra, og dróst saman um tæp 14% eða 330 milljónir milli ára og hefur ekki verið lægri síðan 2014.

Mestu munar um afkomu Arctica Finance, sem versnaði um hálfan milljarð milli ára og var neikvæð um 304 milljónir í fyrra. Þetta kemur fram í samanteknum heildarniðurstöðum fjármálafyrirtækja fyrir árið 2019, sem gefnar eru út af Fjármálaeftirliti Seðlabankans og eru aðgengilegar á vef eftirlitsins.

Sé litið til verðbréfafyrirtækja sérstaklega féll samanlagður hagnaður að Arctica undanskildu um þriðjung og nam 391 milljón. Sé Arctica talið með var hann 87 milljónir.

Eignir lækkuðu um rúmar 400 milljónir
Samkvæmt forsvarsmönnum Arctica skýrist tapið að stærstum hluta af niðurfærslu óskráðra verðbréfa í eigu félagsins, en ekki kom fram um hvaða bréf er að ræða né hver upphæð niðurfærslunnar var.

Samkvæmt ársreikningi félagsins fyrir árið 2018 nam verðbréfaeign í lok þess árs 491 milljón króna, sem skiptist í skuldabréf upp á 81 milljón og hlutabréf upp á 410 milljónir. Félagið hefur ekki birt ársreikning ársins 2019 á vef sínum, né skilað til Skattsins, en í skjali Fjármálaeftirlitsins kemur fram að heildareignir í árslok 2019 námu 676 milljónum króna, samanborið við 1.086 milljónir ári áður.

Ekki kemur fram í skjalinu hvert eigið fé Arctica er, en eiginfjárgrunnur félagsins lækkar úr 945 milljónum í 589 milljónir milli ára, þrátt fyrir að áhættugrunnur lækki lítið sem ekkert, úr 1.843 milljónum í 1.704. Eiginfjárhlutfall lækkar þar með um 16,7% og var 34,6% í árslok 2019.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .