*

laugardagur, 4. desember 2021
Innlent 14. júlí 2021 14:00

Af­koma Arion um­fram spár grein­ingar­aðila

Rekstrartekjur bankans námu 15 milljörðum króna á árinu og hagnaður um 7,8 milljörðum króna.

Snær Snæbjörnsson
Benedikt Gíslason er bankastjóri Arion.
Eyþór Árnason

Afkoma Arion banka fyrir annan fjórðung ársins var um 7,8 milljarðar króna, talsvert umfram spár greiningaraðila, og reiknuð arðsemi á ársgrundvelli rúmlega 16%. Þetta kemur fram í tilkynningu til kauphallarinnar.

Rekstrartekjur á fjórðungnum námu 15 milljörðum króna. Tekjur af kjarnastarfsemi: hreinar vaxtatekjur, hreinar þóknunartekjur og hreinar tekjur af tryggingastarfsemi, voru um 12 milljarðar króna, sem er 10,5% hækkun frá sama fjórðungi ársins 2020. Rekstrarkostnaður á fjórðungnum nam hins vegar sex milljörðum króna.

„Stærsta breytingin milli ára liggur í virðisbreytingu útlána sem var jákvæð um 0,8 milljarð króna á öðrum ársfjórðungi 2021 en á sama tíma fyrir ári var virðisbreyting neikvæð um 0,9 milljarð króna og tengdist að mestu þeirri óvissu sem uppi var vegna COVID-19 faraldursins. Hreinar þóknanatekjur á öðrum ársfjórðungi 2021 námu 3,6 milljörðum króna, samanborið við 2,7 milljarða króna á sama tíma í fyrra," segir í tilkynningunni.

Tekjuskattshlutfall bankans á fjórðungnum nam 16% og var afkoma af eignum til sölu óveruleg. Sala Arion á Valitor til Rapyd 1. júlí síðastliðinn fyrir 12,3 milljarða króna var ekki bókfærð á tímabilinu í samræmi við alþjóðlega reikningsskilastaðla. 

Vert er að taka fram að þetta eru drög að uppgjöri bankans fyrir annan ársfjórðung og því gæti uppgjörið tekið einhverjum breytingum fram að birtingardegi 28. júlí næstkomandi.

Stikkorð: Arion