Afkoma Avion Group á fyrsta fjórðung var neikvæð um 721 milljón. Það er í takti við væntingar stjórnenda, segir greiningardeild Glitnis.

Rekstrarár Avion Group hefst í nóvember og því lauk fyrsta fjórðungi í lok janúar. Þar sem að samstæðan hefur breyst mikið á undanförnum misserum vegna kaupa á félögum er samanburður á milli ára marklaus.

Vegna árstíðasveiflu er hagnaðarmyndun samstæðunnar yfir sumar- og haustmánuðina en viðbúið að tap sé á fyrri helmingi rekstrarársins, segir greiningardeildin.

Rekstrartekjur á fyrsta ársfjórðungi námu 23 milljörðum króna og er þar á meðal söluhagnaður eigna upp á um einn milljarð en hluti af reglubundinni starfsemi Avion er að kaupa og selja skip og flugvélar.

EBITDA framlegðin var jákvæð um 598 milljónir og EBITDA hlutfallið 2,6%.

Afkomusvið Avion Group eru þrjú: "Aviation Services", "Charter & Leisure" og "Shipping and logistics".

Tekjur "Aviation Services" námu 9,4 milljörðum og EBITDA hlutfallið var 13,2%. Tekjur Charter & Leisure námu 5,7 milljörðum og EBITDA var -24%. Tekjur Shipping and logistica námu 8 milljörðum og EBITDA var 10,9%.