Símaframleiðandinn Blackberry tapaði 148 milljónum dala á þriðja ársfjórðungi, en á sama tímabili í fyrra tapaði félagið 4,4 milljörðum dala og er munurinn því umtalsverður.

Þrátt fyrir það segir forstjóri félagsins, John Chen, að niðurstaðan væri ófullnægjandi því tekjur Blackberry drógust mjög saman á tímabilinu. Nam veltan 793 milljónum dala á þriðja fjórðungi þessa árs, en nam 1,2 milljarði dala á sama tímabili í fyrra.

Í vikunni kynnti Blackberry til sögunnar nýjan síma , sem ber nafnið Classic, og á hann að höfða til viðskiptavina sem kunna betur við síma með lyklaborðum en snertiskjám.