Rekstrarhagnaður þýska bílarisans BMW dróst lítillega saman á milli ára á þriðja ársfjórðungi. Hann nam 1,93 milljörðum evra og var það 3,7% samdráttur frá sama tíma í fyrra. Hann var engu að síður aðeins yfir væntingum markaðsaðila sem bjuggust við 1,86 milljarða evra hagnaði.

Tekjur BMW námu 18,75 milljörðum sem er 0,4% minna en fyrir ári.

Samdrátturinn skýrist einkum af gengislækkun evrunnar gagnvart öðrum gjaldmiðlum auk þess sem fjárkreppan á evrusvæðinu setti strik sitt á bílasölu á fjórðungnum. Breska dagblaðið Financial Times segir í umfjöllun sinni um uppgjör BMW að fyrirtækið hafi varið háum fjárhæðum í nýjustu tækni í bílageiranum, m.a. við framleiðslu á rafbílum en tveir slíkir eru væntanlegir á markað innan skamms, þ.e. BMW i3 og BMW i8. Financial Times segir bílana verða í dýrari kantinum og sé enn óvíst hvort kaupendur muni sleppa taki sínu á buddunni til að kaupa slíka bíla.