Undirliggjandi hagnaður bílaframleiðandans BMW á fyrsta ársfjórðungi jókst um fimmtung frá sama tíma í fyrra og nam nú 2,5 milljörðum evra, og er afkoman betri en greiningaraðilar bjuggust við. BBC News greinir frá þessu.

Tekjur fyrirtækisins á tímabilinu jukust um 14,7% og námu 20,9 milljörðum evra. Er það miklum söluvexti í N-Ameríku og Evrópu að þakka.

„Við höfum byrjað þetta ár vel. Við miðum að því að ná góðum vexti á árinu 2015 með metsölu- og hagnaði á tímabilinu,“ segir Norbert Reithofer, stjórnarformaður BMW, um afkomuna.

Gengi hlutabréfa í fyrirtækinu hækkaði lítillega eftir kynningu uppgjörsins, en lækkaði svo aftur í kjölfarið. Er það nú um hálfu prósenti lægra en við upphaf viðskipta í morgun.