Afkoma Borgarbyggðar í fyrra var mun betri en áætlanir gerðu ráð fyrir, 217 milljónir króna í stað  40 milljóna eins og gert hafði verið fyrir samkvæmt endurskoðaðri fjárhagsáætlun.

Fram kemur í ársreikningum Borgarbyggðar sem lagðir voru fram til fyrri umræðu á fundi sveitarstjórnar Borgarbyggðar í gær að skatttekjur hafi verið umfram áætlanir, breytingar á gengislánum hafi skilað sér í minni fjármagnskostnaði en rekstrarkostnaður hafi að mestu öðru leyti verið í samræmi við áætlanir.

Fram kemur í uppgjöri sveitarfélagsins að heildartekjur sveitarsjóðs og B-hluta fyrirtækja hafi numið rúmum 2,5 milljörðum króna á síðasta ári en rekstrargjöld án fjármagnsliða numið rúmum 2,2 milljörðum króna. Framlegðin var samkvæmt því 17%. Fjármagnsgjöld námu 95 milljónum króna. Þá nam veltufé frá rekstri 296 milljónum króna. Það er 129 milljónum króna en áætlanir gerðu ráð fyrir.

Heildarskuldir Borgarbyggðar og skuldbindingar námu tæpum 4,5 milljörðum króna. Afborganir lántímalána námu 220 milljónum króna og stóðu þær í stað á milli ára. Eignir sveitarfélagsins námu rúmum 5,8 milljörðum króna í lok síðasta árs. Eigið fé var jákvætt um 1.363 milljónir króna í lok síðasta árs.

Skuldir 177% sem hlutfall af heildartekjum

Fram kemur í ársreikningi sveitarfélagsins að skuldir jafngiltu 177% sem hlutfalli af heildartekjum. Í nýjum sveitarstjórnarlögum er kveðið á um að sveitarfélög megi ekki skulda meira en sem nemur 150% af heildartekjum.

Tekið er fram að tilkynningu með ársuppgjöri Borgarbyggðar að inni í heildarskuldum sveitarfélagsins eru lán vegna hjúkrunarálmu við dvalarheimili aldraðra en fjárfesting sveitarfélagsins í tengslum við dvalarheimilið nam 413 milljónum króna. Þar standa framkvæmdir yfir og verið að byggja nýja álmu.

Bent er á að í tillögu að  fjármálareglum sveitarfélaga er gert ráð fyrir að draga megi frá þær skuldbindingar sem tryggðar eru með leigugreiðslum frá ríkissjóði og því mun skuldaviðmið Borgarbyggð lækka sem því nemur.