Rekstrarniðurstaða samstæður Reykjavíkurborgar var jákvæð um 3.723 milljónir króna á fyrstu sex mánuðum ársins. Þetta er betra en áætlun gerði ráð fyrir en hún gerði ráð fyrir 2.203 milljóna króna afgangi. Á sama tíma í fyrra var 1.818 milljóna króna afgangur af rekstri borgarinnar.

Starfsemi borgarinnar skiptist upp á A- og B-hluta. Til A hluta telst starfsemi sem að hluta eða öllu leyti er fjármögnuð með skatttekjum, en í B hluta eru fyrirtæki sem eru að hálfu eða meirihluta í eigu borgarinnar og eru rekin sem fjárhagslega sjálfstæðar einingar.

Rekstrarniðurstaða A-hlutans var neikvæð um 2.353 milljónir króna sem var nokkuð verri en áætlanir gerðu ráð fyrir. Þær gerðu ráð fyrir neikvæðri niðurstöðu upp á 1.711 milljarð króna. Helsta ástæða þess að niðurstaðan fyrir báða hluta skilaði svo jákvæðri niðurstöðu má m.a. rekja annars vegar til tekjufærslu matsbreytinga fjárfestingaeigna hjá Félagsbústöðum í B-hluta og hins vegar til áhrifa fjármagnsgjalda hjá Orkuveitu Reykjavíkur sem fellur í sama hluta. Þar vegur þyngst gengismunur og verðmæti innbyggðra afleiða. Verri niðurstaða í A-hluta skýrist svo m.a. af minni tekjum af sölu byggingaréttar en áætlun gerði ráð fyrir og auknum kostnaði við vetrarþjónustu.

Rekstrarniðurstaða fyrir fjármagnsliði var því jákvæð um 6.667 milljónir króna sem er 591 milljónum krónum lakari niðurstaða en áætlun gerði ráð fyrir, að því er fram kemur í óendurskoðuðum árshlutareikningi Reykjavíkurborgar , sem staðfestur var í borgarráði í dag.