Olíurisinn BP hagnaðist um 4,2 milljarða dala á fyrstu þremur mánuðum ársins. Þetta er talsvert yfir spám markaðsaðila þótt samdrátturinn sé 11% minni en í fyrra. Fram kemur í umfjöllun bandaríska dagblaðsins New York Times um afkomu BP að hún skýrist einkum af nýjum verkefnum í Angóla í Afríku og í Noregi og betri árangri í Afríkuríkinu Trinidal en spáð hafi verið. Þá reyndist rekstrarkostnaður undir væntingum.

Blaðið segir afkomu BP enn dragast saman í Banda´rikjunum og hafi fyrirtækið ekki náð dampi eftir umhverfisslysið við Mexíkóflóa árið 2010. Ellefu létust í slysinu og fóru milljónir olíutunna í sjóinn. New York Times bendir á að slysið hafi haft afdrifaríkar afleiðingar fyrir rekstur BP. Frá upphafi árs 2010 hafi BP selt eignir fyrir 65 milljarða dala til að greiða fyrir hreinsunarstarfið og breyta fyrirtækinu. Á meðal eigna sem BP seldi var helmingshlutur í rússneska olíufyrirtækinu TNK-BP. Þá hefur verulega dregið úr olíuframleiðslu BP. Hún nam 4 milljónum tunna árið 2009 en var komin niður í 2,3 milljónir tunna á fyrsta ársfjórðungi þessa árs.