Gengi hlutabréfa Danske Bank féllu um 3,7% við upphaf viðskiptadagsins í kauphöllinni í Kaupmannahöfn í dag. Ástæðan eru vonbrigði með uppgjör bankans. Hagnaður hans nam 1,5 milljörðum danskra króna, jafnvirði næstum 31 milljarði íslenskra króna, á fyrstu þremur mánuðum ársins. Þetta er engu að síður 200 milljónum danskra króna minna en spáð hafði verið. Bankastjórinn Eivind Kolding er heldur ekki ánægður með uppgjörið. Danska viðskiptablaðið Börsen hefur eftir honum að það sé óásættanlegt.

Í blaðinu segir að hluti af samdrætti Danske Bank skýrist af vanda í rekstri bankans á Írlandi. Danske banka hafi þurft að afskrifa 600 milljónir danskra króna af eignasafni hans þar. Staðan þar er engu að síður skárri en búist var við því gert hafði verið ráð fyrir að Danske Bank gæti þurft að afskrifa 800 milljónir danskra króna af útlánasafninu þar.