*

laugardagur, 23. október 2021
Innlent 10. ágúst 2021 19:04

Afkoma Eikar 5% yfir áætlunum stjórnenda

Fasteignafélagið Eik hefur fært EBITDA spá sína fyrir árið 2021 upp um 350 milljónir króna.

Ritstjórn
Garðar Hannes Friðjónsson, forstjóri Eikar
Haraldur Guðjónsson

Hagnaður Eikar yfir fjármagnsliði, afskriftir og skatta (EBITDA) á fyrri helmiingi ársins var á bilinu 2.670 - 2.730 milljónir króna, samkvæmt stjórnendauppgjöri. EBTDA hagnaður félagsins á fyrsta ársfjórðungi var 1.260 milljónir króna og því má ætla að afkoma Eikar á öðrum ársfjórðungi hafi verið á bilinu 1.410 - 1.470 milljónir króna. Til samanburðar var EBITDA hagnaður Eikar um 1,2 milljarðar á öðrum fjórðungi 2020. 

Í afkomuviðvörun sem fasteignafélagið sendi frá sér í kvöld kemur fram að að afkoman á fyrstu sex mánuðum ársins hafi verið um 5% umfram áætlanir stjórnenda. „Afkoma á tímabilinu batnar einkum vegna þess að stjórnendur ráðgera að neikvæð áhrif faraldursins á viðskiptavini félagsins í ferðaþjónustu verði takmarkaðri en áætlað var.“ 

Þá segir að dregið hafi úr áhrifum virðisrýrnunar viðskiptakrafna þar sem staða þeirra hefur hækkað minna en félagið hafði gert ráð fyrir og horfur á heimtum eru álitnar betri. Sömu ástæður standa til þess að stjórnendur álíta rétt að uppfæra afkomuspá.

Aðlöguð EBITDA afkomuspá Eikar fyrir árið 2021 er nú á bilinu 5.400 - 5.700 milljónir króna, miðað við fast verðlag frá júlí 2021, samanborið við 5.050 - 5.350 milljónir króna í spá þá sem félagið birti í febrúar 2021, en hún miðaði við 2,5% jafna verðbólgu á árinu. Fasteignafélgið hefur því fært upp afkomuspá sína fyrir árið um 350 milljónir króna.

„Ný afkomuspá er líkt og áður háð áhættu- og óvissuþáttum, einkum áhrifa faraldursins, sem geta þýtt að afkoman verði frábrugðin því sem greint er frá í þessari spá,“ segiir í tilkynningunni.

Líkt og kom fram að ofan er um stjórnendauppgjör að ræða og því kann afkoman að taka breytingum þar sem uppgjörsferlinu og könnun endurskoðenda er ólokið. Eik mun birta uppgjör fyrir annan ársfjórðung eftir lokun markaða miðvikudaginn 25. ágúst. 

Upphaflega tilkynning Eikar gaf til kynna að EBITDA hagnaðurinn hafi verið í kringum 2,7 milljarðar á öðrum ársfjórðungi. Félagið sendi þó síðar frá sér leiðréttingu þar sem fram kom að afkoman hafi átt við fyrstu sex mánuði ársins, ekki annan ársfjórðung.

Stikkorð: Eik