*

miðvikudagur, 3. júní 2020
Innlent 1. maí 2020 12:01

Afkoma Eimskipa lakari en áætlað var

EBIDTA félagsins verður allt að 700 milljónum króna lægri á fyrsta ársfjórðungi þessa árs samanborið við árið í fyrra.

Jóhann Óli Eiðsson
Aðsend mynd

Viðbúið er að afkoma Eimskipa á fyrsta ársfjórðungi þess árs verði undir væntingum. Áhrif veirufaraldursins í Kína er meðal annars sökudólgurinn. Þetta kemur fram í tilkynningu til Kauphallarinnar. 

Í tilkynningunni segir að útlit sé fyrir að EBITDA verði á bilinu 9-9,5 milljónir evra, það er um 1,4-1,5 milljarðar króna, á ársfjórðunginum samanborið við 13,2 milljónir evra á sama tíma í fyrra. EBIDTAN verður því um 600-700 milljónum krónum lægri nú en þá. 

„Rekstrarniðurstaða á fyrsta ársfjórðungi í fyrra var mjög góð og þrátt fyrir að ekki hafi verið búist við sambærilegri niðurstöðu á fyrsta fjórðungi þessa árs, þá er hún samt undir væntingum,“ segir í tilkynningunni.

Fyrr á þessu ári var afkomuspá félagsins tekin úr gildi vegna Covid-19 faraldursins. Magn í siglingakerfum félagsins var um 5,0% lægra nú en þá. Útflutningsmagn frá Íslandi og Færeyjum var töluvert undir væntingum sem rekja má til minna flutningsframboðs í fraktflugi til Kína. Einskiptiskostnaður vegna afhendingar á frystiflutningsskipum, sem seld voru í lok síðasta árs, reyndist einnig hærri en ráð hafði verið gert fyrir. 

Eimskip hefur það sem af er ári gripið til nokkurra aðgerða til að hagræða. Til að mynda var 170 manns, um einum tíunda starfsfólks, sagt upp störfum á árinu. Gámasiglingakerfi félagsins hefur verið tímabundið aðlagað sem gerði félaginu kleift að skila tveimur gámaskipum sem voru í leigu fyrr en áætlað var. Þetta kerfi verður í rekstri þar til Dettifoss kemur í þjónustu og samstarfið við grænlenska skipafélagið Royal Arctic Line hefst sem gert er ráð fyrir að verði um miðjan júní. Áætlaður sparnaður á þriggja mánaða tímabili er um 2 milljónir evra. Þá hefur fjárfestingum verið slegið á frest. 

„Heildaráhrif COVID-19 faraldursins á alþjóðahagkerfið, þar með talið landanna við Norður-Atlantshaf þar sem lykilmarkaður félagsins er, eiga eftir að koma að fullu í ljós. Fyrirtækið hefur orðið fyrir beinum kostnaðaráhrifum vegna COVID-19 t.d. kostnaði vegna seinkunar á afhendingu á Dettifossi, áskorunum og auknum kostnaði við afhendingu á Goðafossi og Laxfossi til nýs eiganda og auk kostnaðar tengdum ýmsum aðgerðum sem félagið hefur ráðist í til að tryggja öryggi og heilsu starfsmanna og til að halda flutningakeðjunni gangandi og þjónustu við viðskiptavini,“ segir í tilkynningunni.

Uppgjör fyrsta ársfjórðungs verður birt eftir tæpar þrjár vikur, það er þann 19. maí næstkomandi.

Stikkorð: Eimskip Covid-19