Hagnaður upp á 367,4 milljónir króna varð af rekstri Faxaflóahafna á síðasta ári. Þetta er talsvert betri niðurstaða en fjárhagsáætlun gerði ráð fyrir en hún hljóðaði upp á 205,6 milljónir króna. Niðurstaðan var því næstum 80% betri en búist var við.

Fram kemur í uppgjöri Faxaflóahafna að mestu muni um söluhagnaði af eignum og öðrum tekjum upp á 117,5 milljónir króna sem ekki hafði verið reiknað með auk þess sem tekjur reyndust meiri en áætlanir gerðu ráð fyrir. Vörugjöld námu 868 milljónum króna í fyrra samanborið við 782 milljónir ári fyrr og námu tekjur samantals um rúmlega 2.731 milljón króna. Þær námu 2.450 milljónum árið 2011. Á sama tíma námu gjöld 2.226 milljónum króna í fyrra samanborið við 2.098 milljónir árið 2011.

Sígandi lukka er best

Í skýrslu stjórnar Faxaflóahafna segir m.a. að afkoman hafi verið í meginatriðum samkvæmt því sem lagt var upp með þótt eftirspurn eftir lóðum Faxaflóahafna sé enn í lágmarki. Þá segir að almennt hafi síðasta ár verið hagfellt þar sem sú óvissa sem verið hafi í efnahagsmálum fari minnandi án þess þó að búast megi við verulegum breytingum til hins betra.

„Sígandi lukka er eflaust best í þeim efnum, en án nokkurs vafa eru ýmis góð tækifæri fyrir hendi sem máli skiptir að spila vel úr,“ segir orðrétt í skýrslunni.