Afkoma Festi dróst saman um fimmtung milli ára en fyrirtækið hagnaðist um 1.162 milljónir króna á þriðja ársfjórðungi 2020 samanborið við tæplega 1.500 milljónir árið áður. Hagnaður fyrir fjármagnsliði, skatta og afskriftir (EBITDA) dróst saman um 1,2% milli ára og nam rúmlega 2.500 milljónum. Félagið segir að lakari niðurstöðu megi rekja til Covid-19 samkomutakmarkana sem komu til í ágúst.

Tekjur af dagvörusölu hækkuðu um ellefu prósent milli ára og tekjur af raftækjasölu hækkuðu um fimmtung milli ára. Tekjur af eldsneyti og rafmagni lækkuðu um nær þriðjung. Rekstur N1 og Krónunnar var í samræmi við væntingar.

Framlegð á vörusölu jókst um ríflega prósentustig milli ára og nam 24,8%. Sömuleiðis jókst framlegð af vöru- og þjónustusölu í krónum talið, um tæplega 200 milljónir, og nam rúmlega 5.800 milljónum.

„Rekstur ELKO var áfram umfram væntingar þrátt fyrir að verslun ELKO í Leifsstöð væri með ríflega 70% tekjusamdrátt milli ára. Mikill vöxtur er í verslunum ELKO á höfuðborgarsvæðinu og sérstaklega í netverslun ELKO sem sýnir gríðarlega aukningu milli ár,“ er haft eftir Eggert Þór Kristóferssyni, forstjóra Festi.

Greiða arð og hefja endurkaupaáætlun

Aukinn kostnaður vegna Covid-19 áhrifa var 108 milljónir króna á þriðja ársfjórðungi. Þrátt fyrir að veirufaraldurinn hafi leitt til lakari rekstarniðurstaðna en ella greiddi félagið alls 648 milljónir króna í arð. Enn fremur hóf Festi endurkaupaáætlun þann 5. október síðastliðinn þar sem ákveðið var að kaupa allt að 1,2% af hlutafé félagsins.

Í lok annars ársfjórðungs voru hluthafar Festi 965 talsins. Markaðsvirði Festi var rúmlega 48 milljarðar króna. Eignir námu alls 85 milljörðum króna, skuldir 56 milljörðum og eigið fé 30 milljörðum. Eiginfjárhlutfall félagsins var tæplega 35% og segir félagið að horfur í rekstrinum séu góðar, enn fremur að það sé vel stakk í búið að takast á við verkefnin framundan.

Á fyrstu níu mánuðum ársins hefur Festi hagnast um 1.740 milljónir króna sem er um 300 milljónum lægri afkoma en árið áður. EBITDA spá Festi fyrir árið 2020 er nú á bilinu 7.200-7.500 milljónir króna. Á síðasta ári nam EBITDA 7.600 milljónum.