Finnska flugfélagið Finnair birti í morgun tölur um afkomu sína á síðasta ársfjórðungi. Í Morgunkorni Glitnis segir að tekjur félagsins á fjórðungnum hafi reynst aðeins hærri en greiningaraðilar höfðu búist við en EBIT heldur lægra.

Hins vegar var hagnaður fyrir skatta umfram væntingar vegna jákvæðra fjármagnsliða. Hann nam 28,8 milljónum evra en meðalspá gerði ráð fyrir hagnaði upp á 22 milljónir evra fyrir skatta.

FL Group er enn næst stærsti hluthafinn í Finnair þrátt fyrir að hafa selt út tæplega 12% hlut í í desember. Enn á FL Group 12,7% í flugfélaginu finnska.  Finnair gaf ekki upp tölulegar áætlanir um vöxt á þessu ári, en sagði þó að umsvif í Asíu myndu aukast um 20% og að kólnun alþjóðahagkerfisins myndi ekki draga eins mikið úr flugumferð á milli Asíu og Evrópu og á öðrum leiðum félagsins.