Hagnaður FL Group á þriðja ársfjórðungi nam 5,3 milljörðum kr og var undir spá greiningardeildar Glitnis um 7,8 milljarða króna hagnað. Mestu munar um að fjárfestingatekjur námu 565 milljónum króna og voru langt undir spá Glitnis-mann um 4,1 milljarða króna hagnað af þeirri starfsemi.

Svo virðist sem hagnaður af hlutabréfum hafi verið mun minni en við spáðum, sérstaklega í ljósi þess að bókfærður er 3 milljarða kr. söluhagnaður af Icelandair Group í uppgjörinu. Félagið virðist auk þess hafa haft hærri meðalstöðu í erlendum eignum en greiningardeild Glitnis reiknaði með. EBITDA framlegð Icelandair Group nam 3,3 milljörðum kr. (spá 4,3 milljarðar kr.) og var því undir væntingum greiningardeildar Glitnis.

EBITDA framlegð Sterling var einnig undir væntingum, nam 1,3 milljörðum kr. (spá 2,4 milljarðar kr.). EBITDA Sterling á fyrstu níu mánuðum ársins er jákvæð um 163 milljónir kr. án endurskipulagskostnaðar og nemur umsnúningur EBITDA því nær 6 milljörðum kr. frá sama tíma í fyrra. Þá var tekjuskattsfærsla fjórðungsins jákvæð um 250 milljónir kr. (spá -1,7 milljarðar kr.).