Sérfræðingur hjá Goldman Sachs í New York segir að afkoma bandarískra fyrirtækja á fyrsta ársfjórðungi verði „afleit” og að gengi hlutabréfa muni falla í kjölfar þess að forráðamenn þeirra muni lýsa yfir versnandi afkomuárum fyrir þetta ár.

Bloomberg-fréttaveitan hefur undir höndum greiningu frá Goldman Sachs þar sem að fram kemur að ekki verða mörg tilefni til lúðrablástur á bandaríska hlutabréfamarkaðnum í ár.

Fram kemur í skýrslunni að sérfræðingar Goldman Sachs búist við almennt við að afkoma fyrirtækja á fyrsta fjórðungi verði léleg og að þau muni í stórum stíl lækka afkomuspár sínar fyrir árið.

Uppgjörshrina fyrsta fjórðungs er hafin í Bandaríkjunum og hafa fyrirtæki á borð við General Electric, Alcoa og United Parcel Service skilað uppgjörum sem voru undir væntingum markaðarins.

Greining Goldman Sachs er unninn af sérfræðingateymi sem David Kostin fer fyrir. Í síðustu viku spáði hann að S&P 500 hlutabréfavísitalan muni lækka um 6% á árinu. Um er að ræða svartsýnustu spá bankans frá því árið 2000.

Kostin byggir spá sína meðal annars á þeirri forsendu að væntingar um að bandaríska hagkerfið verði fljótt að jafna sig á núverandi niðursveiflu eigi ekki við rök að styðjast. Það mun svo verða til þess að breyttar væntingar fjárfesta muni endurspeglast í lækkunum á gengi hlutabréfa.

Eins og fram kemur í frétt Bloomberg er enginn skortur á spám sem eru þvert á það sem að sérfræðingar Goldman Sachs segja. Hinsvegar taka menn eftir greiningum bankans um þessar mundir, ekki síst vegna þess að hann var einn fárra sem náði að hagnast á hruninu á markaðnum með bandarísk undirmálslán.

Reyndar er Goldman Sachs ekki eini fjárfestingabankinn sem telur horfurnar dökkar um þessar mundir. Í dag lýstu sérfræðingar Merrill Lynch, sem er annar stærsti fjárfestingabankinn á Wall Street, því yfir að hagnaður bandarískra fyrirtækja væri of mikill með hliðsjón af stærð bandaríska hagkerfisins.