Breska matvörufyrirtækið Geest, sem Bakkavör Group á um fimmtungshlut í, var rekið með 13,3 milljón punda hagnaði fyrir skatta á fyrri árshelmingi. Það er heldur lakari afkoma en á sama tíma árið áður en engu að síður í takt við væntingar á breska hlutabréfamarkaðnum.

Velta Geest jókst aftur á móti á milli ára og var nú um 451 milljón punda samanborið við 423 milljónir í fyrra. Stjórnendur félagsins segja markaðsaðstæður hafa verið erfiðar á fyrri árshelmingi og að ekki megi búast við að breyting verði þar á í náinni framtíð.

Geest greindi einnig frá því í morgun að samningar hefðu tekist um yfirtöku félagsins á fyrirtækinu Angelia Crown, sem sér um 100 spítölum í Bretlandi fyrir matvöru, fyrir 16 milljónir punda.

Fyrstu viðbrögð á breksa hlutabréfamarkaðnum við uppgjöri Geest voru jákvæð en hlutabréf félagsins hækkuðu um tæplega 2% í morgun.