Bandaríski fjárfestingarbankinn Goldman Sachs hagnaðist um 962 milljónir dala, jafnvirði tæpra 123 milljarða íslenskra króna, á öðrum fjórðungi ársins. Þetta er 11% samdráttur á milli ára og skrifaðist á minni umsvif á sviði eignastýringar og fjárfestingaráðgjafar.

Fram kemur í uppgjöri bankans að tekjur námu 6,6 milljörðum dala, sem er 9% samdráttur á milli ára og 33% minna en á fyrsta fjórðungi ársins. Tekjur bankans á fyrri hluta ársins námu 16,6 milljörðum dala sem er 14% samdráttur frá sama tíma í fyrra.

Í umfjöllun bandaríska stórblaðsins The Wall Street Journal um uppgjörið er haft eftir bankastjóranum Lloyd Blankfein, að kreppan á evrusvæðinu hafi m.a. haft þær afleiðingar að aðstæður á fjármálamörkuðum hafi verið einkar erfiðar á fjórðungnum. Aðstæðurnar og verri afkoma bankans en áður valda því að stjórnendur hans leita nú leiða til að draga úr kostnaði. Líklegt þykir að um tvö hundruð starfsmönnum verði sagt upp í þeim tilgangi. Starfsmenn Goldman Sachs voru rúmlega 32.000 í lok 2. ársfjórðungs.