*

miðvikudagur, 26. júní 2019
Innlent 8. janúar 2019 09:16

Afkoma Haga undir afkomuspá

Olís varð dótturfélag Haga um áramótin. Söluhagnaður af skilyrtri eignarsölu félaganna nam 15 milljónum í heildina.

Ritstjórn
Finnur Árnason er forstjóri sameinaðs félags Haga og nýja dótturfélagsins Olís.
Haraldur Guðjónsson

Þann 30. nóvember síðastliðinn gekk sameining Haga og Olís í gildi en eins og Viðskiptablaðið sagði frá í september samþykkti Samkeppniseftirlitið samrunann með skilyrðum.

Afkoma Haga á yfirstandandi rekstrarári, sem stendur frá 1. mars 2018 til 28. febrúar 2019, verður undir 5 milljarða útgefinni afkomuspá félagsins. Þetta hafi komið fram í ljós við bráðabirgðauppgjör félagsins að því er kemur fram í tilkynningu frá félaginu.

Samkvæmt nýrri afkomuspá verður afkoma Haga á bilinu 4,6 til 4,7 milljarðar króna á rekstrarárinu, að undanskildum kostnaði við samruna og án tekjuáhrifa af Olís og fasteignafélaginu DGV sem einnig kemur inn í Haga við samrunann.

Er framlegð þriðja ársfjórðungs rekstrarárs félagsins 1% lægri en á fyrra ári og fyrir fyrstu 9 mánuðina er hún 0,7% lægri, en félagið segir gengisfall íslensku krónunnar þar hafa áhrif. Þó hefur vörusala félagsins verið góð, söluaukningin á þriðja ársfjórðungi nam 9,5%, en 4,0% fyrstu 9 mánuði rekstrarársins, frá fyrra ári.

Kaupvirði hærra en bæði bókfært og markaðsvirði hlutanna

Kaupvirði Olís nam 10,7 milljörðum, greitt tæplega til helminga með reiðufé og hlutabréfum í Högum. Kaupvirði hlutanna í Högum samkvæmt samningi er þó hærra, eða 47,5 krónur, heldur en samkvæmt bókhaldi en samkvæmt alþjóðlegum reikningsskilastöðlum reiknast það m.v. verð á afhendingardegi, 46,25 krónur. Þess má geta að við lokun markaða í gær nam virði hvers hlutar í Högum 45,05 krónum.

„Fyrir liggur að EBITDA afkoma Olís og DGV skv. bráðabirgðauppgjöri fyrir fyrstu 11 mánuði 2018 er um 2.270 millj. króna. Eigið fé Olís og DGV þann 30. nóvember sl. var 7.272 millj. kr. og nettó vaxtaberandi skuldir 4.686 millj. kr. Olís og DGV munu verða hluti af rekstri samstæðu Haga á fjórða ársfjórðungi og áætlanir gera ráð fyrir að EBITDA Olís og DGV fyrir tímabilið desember 2018 til febrúar 2019 verði um 230 millj. króna. Skv. bráðabirgðauppgjöri samstæðu Haga, sameinaðs félags, þann 30. nóvember er eiginfjárhlutfall 45% og nettó vaxtaberandi skuldir 13.119 millj. króna,“ segir í tilkynningunni.

Stikkorð: Hagar Olís afkoma DVG
25 ára afmælistilboð VB – 50% afsláttur af áskrift

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti.
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir í 4 mánuði. Áskrifendur fá Viðskiptablaðið, Frjálsa verslun og Fiskifréttir sent ásamt vefaðgangi að vb.is og fiskifrettir.is