Hampiðjan tapaði um 134 milljónum króna á fyrri hluta ársins eða um 1,5 milljónum evra. Rekstrarhagnaður fyrir fjárliði, án annarra tekna og gjalda, var nam hins vegar liðlega 206 milljónum króna eða 2,3 milljónum evra. Þetta jafngildir 10% af rekstrartekjum sem er töluvert betra hlutfall á sama tíma fyrir ári.

Í tilkynningu frá Hampiðjunni kemur fram að að rekstrartekjur hafi numið 23,4 milljónum evra sem er nokkru minna en fyrir ári þegar þær voru 26,5 milljónir. Hampiðjan gerir upp í evrum.

Niðurstaðan fyrri hluta ársins var að öðru leyti:

Fjármagnsgjöld að frádregnum fjármunatekjum voru ? 3,9 milljónir til gjalda en voru ? 421 þúsund til tekna á fyrra ári.

Tap tímabilsins var ? 1,5 milljónir, en á fyrra ári var hagnaður ? 2,1 milljón.

"Þó svo rekstrartekjur hafi dregist saman frá fyrra ári, er rekstrarafkoma fyrir fjárliði, án annarra tekna og gjalda, betri en árið áður," segir í tilkynningu frá fyrirtækinu. "Í rekstrarreikningi félagsins má greina þá hagræðingu sem flutningur framleiðslu á garni, netum og köðlum frá Íslandi og Portúgal til Litháen hefur haft í för með sér. Sú hagræðing mun þó ekki skila sér að fullu fyrr en á næsta ári."

"Önnur gjöld, sem voru á tímabilinu ? 334 þúsund, eru mestmegnis einskiptiskostnaður vegna lokunar garnverksmiðju Hampiðjunnar í Portúgal. Á sama tímabili á fyrra ári var þessi liður ? 450 þúsund til tekna, sem var til kominn vegna söluhagnaðar fastafjármuna.

Þrátt fyrir að sala Hampiðjunnar á Íslandi og dótturfyrirækja í Noregi, Bandaríkjunum, Nýja Sjálandi og Namibíu, hafi verið svipuð eða betri en á fyrra ári, leiddi sölusamdráttur dótturfyrirtækja í Danmörku, Kanada og á Írlandi, sem á rætur sínar í erfiðleikum sjávarútvegs í þeim löndum, til þess að sala samstæðunnar dróst saman frá fyrra ári.

Gengislækkun krónunnar á tímabilinu leiddi af sér gengistap erlendra lána innlends dótturfélags Hampiðjunnar og hlutdeildarfélagsins HB Granda hf. Þrátt fyrir reikningsfærða gjaldfærslu vegna hlutdeildar í afkomu HB Granda hf., hækkaði markaðsvirði eignarhlutans um ? 300 þúsund á tímabilinu og var ? 20.1 milljón í lok þess.

Efnahagur

Heildareignir voru ? 73,4 milljónir í lok tímabilsins. Skuldir námu ? 42 milljónum og eigið fé nam ? 31,4 milljónum, en af þeirri upphæð eru ? 5,7 milljónir hlutdeild minnihluta í eigin fé dótturfélaga. Hlutfall eigin fjár, þegar hlutdeild minnihluta er meðtalin með eigin fé, var 43% af heildareignum samstæðunnar.

Horfur
Áætlun ársins gerir ráð fyrir að rekstrarhagnaður samstæðunnar fyrir fjárliði (Ebit), án annarra tekna og gjalda, verði um ? 4 milljónir. Ekki er talin ástæða til að endurskoða þá áætlun."