Leigufélagið Heimavellir hagnaðist um 2,8 milljónir króna á fyrri árshelmingi 2019 samanborið við 136 milljóna króna tap á sama tímabili í fyrra. Leigutekjur námu 1.701 milljónum króna samanborið við 1.823 milljónir króna í fyrra, sem er 7% lækkun milli ára og skýrist af því að íbúðum í eignasafninu fækkar um 257 milli tímabila eða 13%. Greint er frá þessu í fréttatilkynningu.

Íbúðir í rekstri þann 30. júní 2019 voru 1.618 talsins og til viðbótar eru 103 íbúðir í sölumeðferð. Rekstrarhagnaður fyrir matsbreytingu og söluhagnað (EBIT) nam 1.024 milljónum króna eða 60,2% af veltu. Ef litið er fram hjá einskiptis liðum og áhrifum af innleiðingu IFRS16 reikningsskilastaðals er rekstrarhagnaður fyrir matsbreytingu og söluhagnað 61,7% af veltu á fyrri árshelmingi 2019.

Félagið seldi eignir fyrir 6.017 milljónir króna á tímabilinu og var söluhagnaður vegna þeirra 190 milljónir króna eða 3,3% af bókfærðu virði eigna. Matsbreyting eignasafnsins nam 75 milljónum króna á 2. ársfjórðungi 2019. Helstu áhrifaþættir á matsbreytingu eru lækkandi grunnvextir í verðmatslíkani til hækkunar en hækkandi fasteignagjöld samhliða hærra fasteignamati til lækkunar.

Hrein fjármagnsgjöld voru 1.228 milljónir króna á tímabilinu og lækkuðu um 92 milljónir króna milli ára. Virði fjárfestingareigna félagsins án leigueigna og íbúða í sölumeðferð þann 30. júní 2019 var 45.945 milljónir króna.

Eigið fé þann 30. júní 2019 var 18.799 milljónir króna og var eiginfjárhlutfall félagsins 34,5%. Vaxtaberandi skuldir voru 31.620 milljónir króna þann 30. júní 2019. Vegnir meðalvextir félagsins eru 4,14% á verðtryggðum skuldum, sem nema 84% af langtímaskuldum félagsins.

Þá uppfærir félagið afkomuspá sína í kjölfar hraðari eignasölu en gert var ráð fyrir í ársbyrjun þannig að tekjur ársins 2019 eru áætlaðar 3.300 milljónir króna  og lækka um 100 milljónir króna, en tekjur ársins 2020 eru áætlaðar 3.000 milljónir króna og haldast óbreyttar. Áætluð EBITDA framlegð er óbreytt, 63,5% - 64,8% 2019 og 66,6% - 67,8% 2020.

Loks kemur fram að þar sem endurskipulagning eignasafns félagsins hafi gengið vel það sem af er ári, þá hafi söluáætlun félagsins sem birt var í Kauphöll þann 22. janúar 2019 verið uppfærð að nýju og geri nú félagið ráð fyrir að heildareignasala frá 1. júlí 2019 til 2021 verði 14.500 -15.500 milljónir króna og telji ríflega 400 íbúðir.