Rekstrarhagnaður Heklu hf. fyrir afskriftir, fjármagnsgjöld og skatta nam 484 millj. kr. samanborið við 207 millj. kr. hagnað á tímabilinu janúar til júní 2004. Á tímabilinu janúar til júní árið 2005 voru fjármagnsliðir neikvæðir um 157 millj. kr. en fyrir sama tímabil árið 2004 voru fjármagnsliðir neikvæðir um 130 millj. kr.

Heildartekjur Heklu hf. og dótturfélaga námu á tímabilinu 8.923 millj. kr. Á sama tímabili árið 2004 námu heildartekjur 6.666 millj. kr. Tekjuaukning á milli ára er því 34%.

Rekstrargjöld Heklu hf. námu 8.438 millj. kr. á tímabilinu janúar til júní 2005 og hækkuðu rekstrargjöld um 31% frá sama tímabili á árinu 2004 þegar þau námu 6.459 millj. kr.

Heildareignir Heklu hf. voru í lok júní 2005 bókfærðar á 7.478 millj. kr. samanborið við 5.974 millj. kr. í árslok 2004. Heildarskuldir Heklu hf. í lok júní 2005 námu 5.961 millj. kr. samanborið við 4.799 millj. kr. í árslok 2004. Í lok júní var eigið fé Heklu hf. 1.516 millj. kr. og eiginfjárhlutfall 20,3% en í árslok 2004 var eigið fé félagsins 1.175 millj. kr. og eiginfjárhlutfall 19,7%.

Veltufé frá rekstri fyrir tímabilið janúar til júni 2005 nam 352 millj. kr. Á sama tímabili árið áður nam veltufé frá rekstri 128 millj. kr.

Meðalfjöldi starfsmanna Heklu hf. á tímabilinu janúar til júní 2005 var 178 samanborið við 188 á sama tímabili árið 2004. Laun, launatengd gjöld og annar starfsmannakostnaður nam á tímabilinu janúar til júní 2005 alls 584 millj. kr.