*

föstudagur, 5. júní 2020
Innlent 10. janúar 2020 12:44

Afkoma hótela versnar áfram

Afkoman dróst saman um 700 milljónir króna milli áranna 2017 og 2018 en var enn meiri árið 2016.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Rekstrarhagnaður hótela og gistiheimila, að teknu tilliti til afskrifta, dróst saman í fyrra, nam 8,5 milljörðum króna eða um 9,3% af tekjum. Afkoman dróst saman um 700 milljónir króna milli áranna 2017 og 2018 en var enn meiri árið 2016. Þetta kemur fram í nýútkominni Hagsjá Landsbankans.

Í Hagsjánni segir að rekstrarhagnaðurinn sé enn hár í sögulegu ljósi en hann náði hæstu hæðum árið 2016 þegar hann var 12 milljarðar króna og 14,7% tekjum. Þar kemur enn fremur fram að rekstrarhagnaður á herbergi hafi dregist saman eða um 13,8% milli ára eftir að hafa lækkað um 28,4% milli áranna á undan.

„Lækkandi rekstrarhagnað milli 2016 og 2017 má einfaldlega skýra með því að rekstrarkostnaður jókst meira en rekstrartekjur. Tekjurnar jukust um 6,8 ma.kr. árið 2017, eða 8,4%, og 3,6 ma.kr. árið 2018, eða 4,1%. Rekstrarkostnaður jókst hins vegar um 9,4 ma.kr, eða 14,3% árið 2017 og 4,2 ma.kr. árið 2018, eða 5,6%,“ segir í Hagsjánni.

Hækkun á kostnaðarhliðinni má rekja til aukins launakostnaðar og annars rekstrarkostnaðar utan vöru- og hráefniskostnaðar en sá liður blés út um tæpan fjórðung milli áranna 2016 og 2018.

Tölurnar ná til 659 rekstraraðila en tekjur þeirra námu 92 milljörðum króna í fyrra. Nokkur stór fyrirtæki í geiranum setja sérstakan svip á niðurstöðurnar en til að mynda voru tekjur Icelandair hótela um 13,2% af heildinni.  

Stikkorð: Hótel ferðaþjónusta hagsjá