Breski bankinn HSBC hagnaðist um 9 milljarða punda, jafnvirði tæpra 1.700 milljarða íslenskra króna, á síðasta ári. Þetta er 17% samdráttur á milli ára. Markaðsaðilar höfðu búist við betri afkomu í skugga þess að bankinn þarf að greiða himinháar sektir fyrir viðskipti sín við eiturlyfjabaróna og stundað peningaþvætti fyrir misskuggaleg fyrirtæki. Bankinn var sektaður um 1,9 milljarða dali, um 240 milljarða íslenskra króna, vegna þessa í fyrra.

Fram kemur í umfjöllun breska ríkisútvarpsins, BBC , að afkoma HSBC hafi verið góð í Hong Kong og víðar í Asíu auk þess sem viðsnúnings hafi gætt í Evrópu. Þá dró verulega úr vanskilum hjá bankanum.

Fjárfestar tóku þrátt fyrir þetta afkomutölum HSBC ekkert alltof vel og féll gengi hlutabréfa bankans í fyrstu viðskiptum dagsins.