Icelandair Group [ ICEAIR ] var rekið með 780 milljóna króna tapi á fjórða fjórðungi ársins, sem er 230 milljónum króna lakari afkoma en á sama fjórðungi í fyrra, eins og sjá má í meðfylgjandi töflu.

Tapið er einnig nokkru meira en meðalspá greiningardeildanna, sem hljóðaði upp á 538 milljónir króna.

Velta umfram spár

Veltan var hins vegar tæpum 1,3 milljörðum króna meiri en spáð hafði verið og hagnaður fyrir skatta, fjármagnsliði og afskriftir, EBITDA, var svipaður og spáð hafði verið, en EBIT tæpum 100 milljónum króna lakara en meðalspá.

Hagnaður ársins dróst saman um 90%

Velta ársins í heild jókst um 13% frá fyrra ári og nam 63,5 milljörðum króna. Hagnaður eftir skatta dróst hins vegar saman um 90% og nam 257 milljónum króna.

Afkoma í samræmi við spár félagsins frá því í nóvember

Í tilkynningunni er haft eftir Björgólfi Jóhannssyni forstjóra félagsins að afkoman í fyrra hafi verið í samræmi við spár þess sem kynnt hafi verið í nóvember.

„Rekstrarhagnaður (EBITDA) er tæplega 5,5 milljarðar króna. Fyrirtækin innan samstæðunnar mynda sterka heild og undirstöður þess eru traustar og fjölþættar, en fjármagnskostnaður hækkaði verulega á árinu. Ljóst er að afkoma félagsins þarf að batna, efniviðurinn er til staðar, og ég er bjartsýnn á framhaldið. Góður stígandi var á árinu í rekstri Icelandair, stærsta fyrirtækisins innan samstæðunnar. Rekstur Icelandair Cargo og Bláfugls, sem bæði starfa á vettvangi fraktflutninga var undir væntingum, en afkoma Loftleiða-Icelandic var umfram væntingar. Mikill vöxtur einkenndi starfsemina á árinu 2007, sem var fyrsta starfsár félagsins eftir skráningu á markað í árslok 2006. Starfsemin hefur farið vel af stað á þessu ári. Umtalsverð endurnýjun á þjónustu Icelandair verður gerð á árinu í tengslum við nýjar innréttingar í flugflota félagsins. Heldur verður dregið úr framboði Icelandair frá síðasta ári og lögð áhersla á aðhald í rekstri. Þá verður unnið úr kaupum Icelandair Group á tékkneska flugfélaginu Travel Service og lögð áhersla á nýtingu samlegðaráhrifa og frekari vöxt í Mið]Evrópu,“ er haft eftir Björgólfi.