Í Morgunkorni Glitnis segir að afkoma Icelandair verði undir áætlunum á þriðja fjórðungi. Fram kemur að tekjur í farþegaflugi Icelandair hafi verið lægri en áætlað var, m.a. vegna sterkrar stöðu íslensku krónunnar og lægri meðalfargjalda. Viðhaldskostnaður var einnig hærri í samstæðunni en reiknað var með. Þá hafði sterk staða krónunnar áhrif á útflutning frá landinu og þar með á afkomu Icelandair Cargo.

Þetta eru ekki góð tíðindi fyrir Icelandair þar sem þriðji fjórðungur er jafnan sá mikilvægasti í rekstrinum. Viðbrögð á markaði hafa verið sterk í morgun þar sem hlutabréf félagsins hafa lækkað um 7,8% (kl. 11:00). Við munum gefa út uppfærða afkomuspá fyrir þriðja fjórðung og árið 2007 fljótlega.