Tæplega 46,7 milljóna króna afgangur varð af rekstri Ísafjarðarbæjar í fyrra. Þetta er talsverður bati á milli ára en 301 milljóna króna halli varð á rekstri bæjarins árið 2011. Þetta er jafnframt nokkuð umfram væntingar en búist var við rétt rúmlega fjögurra milljóna króna afgangi eftir árið.

Ársreikningur bæjarins var tekinn til fyrri umræðu 18. apríl og honum síðan vísað til seinni umræðu sem verður 2. maí 2013.

Fram kemur í ársreikningi Ísafjarðarbæjar að rekstrartekjur sveitarfélagsins námu 3.255 milljónum króna í fyrra samkvæmt samanteknum rekstrarreikningi fyrir A og B hluta. Fjárhagsáætlun gerði ráð fyrir rekstrartekjum upp á 3.115 milljónir króna. . Rekstrartekjur A hluta námu 2.828 milljónum króna en fjárhagsáætlun gerði ráð fyrir rekstrartekjum að fjárhæð 2.723 milljónum króna.

Í ársreikningnum kemur m.a. fram að eigið fé sveitarfélagsins í lok síðasta árs nam 594 milljónum króna. Þar af nam eigið fé A hluta 705 milljónum króna.

Eru yfir skuldaviðmiðum

Skuldahlutfall sveitarfélagsins var 115% í A-hluta en 151% í samanteknum A- og B-hluta. Samkvæmt sveitastjórnarlögum má skuldahlutfallið ekki vera hærra en 150%. Fram kemur í ársreikningnum að sé fjárfesting sveitarfélagsins í nýju hjúkrunarheimili dregin frá fer skuldahlutfallið niður í 149%.

Ársreikningur Ísafjarðarbæjar